139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við þessa atkvæðagreiðslu því að venja er til að forseti sendi út skilaboð til að gera þingmönnum viðvart um að atkvæðagreiðsla sé í bígerð. Það var ekki gert.

Ég vil líka gera athugasemd við það að við séum að fara hugsanlega inn í kvöldið og nóttina. Ég er ekki að kvarta undan því að þurfa að vera hér í nótt heldur vegna þess að við erum enn ekki búin að fá neina skýringu á því frá forseta þingsins, forsætisráðherra eða öðrum sem virðast halda um stjórnartaumana hvers vegna í ósköpunum þetta mál sem við erum að ræða fram á nótt, gerðum það í nótt af mikilli gleði og ánægju, skuli vera málið sem á að klára í september. Það er alveg furðulegt. Þessar skýringar þurfa að koma fram, forseti.

Í þriðja lagi er ég með fimm atriði sem ég þarf að ræða við hæstv. forseta á næsta þingflokksformannsfundi með forseta og ég óska eftir því að forseti tilkynni okkur hvort það standi til að halda slíkan fund eða hvort þingflokksformenn geti bara gleymt því að þurfa að hitta forseta á þessu þingi.