139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er guðsþakkarvert að fá að ræða í björtu þetta mikilvæga mál, breytingar á Stjórnarráðinu. Það stefndi í að sá sem hér stendur þyrfti að ræða þetta mál á milli kl. 5 og 6 í nótt en af því varð sem betur fer ekki.

Mig langar fyrst að víkja að forgangsröðuninni á þessu septemberþingi. Eins og fram kom í morgun eru 46 mál á dagskrá og ríkisstjórnin virðist hafa ákveðið að þetta mál skipti miklu meira máli en önnur sem eru á dagskrá þingsins. Þó blasir við okkur að íslenskt atvinnulíf glímir við mikla erfiðleika, skuldsett heimili hafa ekki fengið úrlausn sinna mála og við höfum horft upp á ríkisstjórn sem hefur því miður aðhafst mjög lítið þegar kemur að erfiðleikum sem steðja að íslensku samfélagi. Þess í stað er einkamál og áherslumál hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, tekið fyrir og verður svo að vera.

Mig langar að ræða um virðingu þingsins áður en ég held áfram og hvernig haldið hefur verið á þessari umræðu. Ég held að það séu nokkuð mörg ár síðan ég heyrði slík gífuryrði í umræðunni eins og komið hafa fram hjá hv. stjórnarliðum þegar þeir sendu tóninn þeim stjórnarandstæðingum sem vilja veita stjórninni aðhald og standa vörð um Alþingi Íslendinga gagnvart framkvæmdarvaldinu. Sagt hefur verið að fólk sé greindarskert og hæstv. utanríkisráðherra notaði orðið talíbanar í morgun um þingmenn. Menn eru sagðir með geðklofa og inn í þetta blandast svo embætti forseta Íslands sem er kallaður ræfill í þessari umræðu. Svo koma hv. þingmenn stjórnarliðsins hingað upp bláeygðir eins og hreinar meyjar og tala um virðingu Alþingis í þessu samhengi. Allt eru þetta orð sem stjórnarliðar hafa látið falla í stuttum andsvörum en þeir hafa ekki látið svo lítið að koma með efnislegar athugasemdir við þær ræður sem hér hafa verið fluttar. Eftir því sem ég hef skoðað þetta mál meira og betur sýnist mér um grundvallarmál að ræða sem þurfi að afgreiða af yfirvegun eftir þá umræðu sem þetta mál á skilið. Svo er verið að tala um að stjórnarandstaðan stundi gamaldagspólitík. Stjórnarliðar koma upp hver á fætur öðrum og nota þá frasa að hér stundi þingmenn gamaldagspólitík en þeir hinir sömu þingmenn ætla að festa foringjaræðið, oddvitaræðið, enn frekar í sessi.

Það varð hérna heilt efnahagshrun. Það var gerð skýrsla, það var gerð úttekt á því hvað meðal annars leiddi til þess hruns. Það voru greidd atkvæði um þá skýrslu, 63:0, þar sem talað var um að auka áhrif, veg og virðingu Alþingis. Við erum að tala um breytingar á Stjórnarráði Íslands þar sem foringjar stjórnarliðsins vilja hafa alræðisvald án þess að Alþingi komi nokkuð að því hvernig þeir haga málum innan Stjórnarráðsins. Skyldi ekki eitthvað hafa verið til í því þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði í morgun að það þyrfti tvo til að afgreiða svona mál? Skyldi hann ekki hafa átt við sig og hæstv. forsætisráðherra? Svo koma hv. stjórnarliðar og fótgönguliðarnir á eftir og samþykkja allt sem þessir foringjar leggja fram. Það þarf tvo til, sagði hæstv. fjármálaráðherra í morgun.

Nei, ég stend ekki hér til að stunda einhverja gamaldagspólitík. Ég stend hér til að standa vörð um löggjafarþingið og koma í veg fyrir að menn haldi áfram á þeirri braut að auka vald framkvæmdarvaldsins sem hefur verið allt of mikið gagnvart Alþingi Íslendinga á undangengnum árum. Það er ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar eða síðustu ríkisstjórnar eða þarsíðustu ríkisstjórnar. Við getum farið miklu lengra aftur. Við sjáum mörg mistök sem hafa verið gerð í gegnum tíðina þar sem Alþingi hefur því miður verið eins konar stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið. Þess vegna tölum við hér, við viljum koma í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram og menn styrki foringjaræðið enn frekar í sessi, þ.e. völd hæstv. forsætisráðherra í þessu samhengi.

Mig langar að biðja frú forseta um að athuga hvort hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra séu á svæðinu vegna þess að ég ætla að beina til þeirra spurningum sem mér finnst við ekki hafa fengið svör við í þessari umræðu. Ég fer fram á svör við þeim spurningum í ljósi þess hversu mikið grundvallaratriði við erum að ræða.

(Forseti (SF): Forseti mun láta kanna þetta mál.)

Ég þakka frú forseta fyrir það. Ég mun þá bíða með það í ræðunni að varpa þessum spurningum fram. Þó að hæstv. ráðherrar hafi verið skráðir í hús hafa þeir því miður ekki verið mikið í salnum að skiptast á skoðunum við okkur þingmenn um efni þessa frumvarps.

Áður en ég held áfram vil ég segja að það er margt gagnlegt og gott í þessu frumvarpi sem við ræðum hér, margt sem til framfara horfir og væri sjálfsagt að afgreiða með einhverjum hætti. En ég stoppa og stöðva og lýsi andstöðu minni við þetta mál vegna þess að 2. gr. frumvarpsins er grundvölluð á því að Alþingi Íslendinga framselji vald sitt héðan til hæstv. forsætisráðherra. Hingað og ekki lengra, segi ég. (PHB: 4. gr.) Fleiri greinar koma þar undir, t.d. 4. gr. eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir réttilega á.

Hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og fleiri stjórnarliðar sem hér hafa talað hafa lýst því yfir að megingrundvöllur þessa frumvarps sé vinna þingmannanefndar Alþingis sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það var mjög fróðlegt að heyra um eittleytið í nótt þegar formaður þeirrar nefndar kom hér upp og lýsti því yfir að hann væri algjörlega ósammála því að andi þessa frumvarps sem við ræðum hér væri byggður á niðurstöðu þingmannanefndar Alþingis. Ég ætla að vitna í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hann þurfti því miður að flytja ræðu sína eftir miðnætti og ég býst við að flestallir hafi verið sofnaðir þá, jafnvel einhverjir þingmenn líka. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður er félagi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði — hv. þm. Mörður Árnason er að reyna að leiðrétta mig en hv. þm. Atli Gíslason er félagi í stjórnmálaflokki sem heitir Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Reyndar er það rétt að hv. þingmaður hafði dug í sér til að segja skilið við þessa ríkisstjórn, það er alveg rétt, en ég held að hv. þm. Mörður Árnason geti ekki tekið það af hv. þingmanni að hann er félagi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég ætla að vitna í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem hann hélt um eittleytið í nótt, með leyfi frú forseta:

„Ég nefndi fyrr í ræðu minni að með frumvarpinu sé löggjafarvald flutt til framkvæmdarvaldsins, þ.e. forsætisráðherra. Það hefur verið ítarlega rökstutt, bæði varðandi heiti ráðuneyta og verkefnaflutning. Forsætisráðherra fær meiri völd, oddvitaræðið er styrkt. Málum verður ekki skipað með lögum með sama hætti og nú er. Að mínu mati er það alls ekki í anda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstaðna og ályktana þingmannanefndarinnar. Þetta er að mínu mati öfug þróun og gengur gegn niðurstöðum þessara nefnda um formfestu og rýrir enn hlut löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það er á sama tíma og allir hv. þingmenn sem ég hef heyrt tala á þinginu kalla eftir auknu sjálfstæði þingsins, nákvæmlega á sama tíma, að því sé ekki stýrt af framkvæmdarvaldinu eins og niðurröðun dagskrár í dag og fleirsinnis bendir sterklega til.“

Ég held að þetta geti ekki verið skýrara, frú forseti, þessi orð hv. þm. Atla Gíslasonar um að þetta mál sé ekki byggt á grundvelli niðurstöðu þingmannanefndar Alþingis. Þetta er skoðun formanns þeirrar nefndar. Þar með tel ég að ákveðinn rökstuðningur sem bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa fært, og stendur reyndar í greinargerð með frumvarpinu sjálfu, sé fallinn um sjálfan sig. Svo eru menn sakaðir um að viðhafa málþóf þegar þeir tala um að auka veg, virðingu og völd Alþingis Íslendinga gagnvart framkvæmdarvaldinu. (PHB: Og enginn svarar.) Og enginn svarar. Ja, þvílík virðing gagnvart þeirri stofnun sem við höfum verið kosin á til að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Af því að skýrsla þingmannanefndar sem átti að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á samkvæmt forustumönnum ríkisstjórnarinnar að vera grundvöllur þessa frumvarps ætla ég að vitna í meginniðurstöður og ályktanir skýrslu þingmannanefndarinnar sem var samþykkt á Alþingi Íslendinga með öllum greiddum atkvæðum, hverju einu og einasta, og hefst nú tilvitnunin:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.

Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Þingmannanefndin telur fulla ástæðu til að taka alvarlega gagnrýni í umfjöllun vinnuhóps um siðferði um íslenska stjórnmálamenningu og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni. Alþingi á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það.“

Meginniðurstaða þingmannanefndarinnar var sú að við ættum að styrkja Alþingi frekar en hitt. Hér er verið að ganga í þveröfuga átt og þeir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem samþykktu þessa niðurstöðu koma í þingsal og ætla sér að samþykkja það frumvarp sem við ræðum hér sem felur í sér valdaframsal frá Alþingi Íslendinga til hæstv. forsætisráðherra — sem er verulega ánægjulegt að sjá í salnum.

Af því að hæstv. forsætisráðherra er hingað komin langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún geti rökstutt það að með því að veikja valdheimildir Alþingis Íslendinga og færa þær til framkvæmdarvaldsins sé stuðst við niðurstöðu þingmannanefndar Alþingis. Það varð hér heilt hrun og hæstv. forsætisráðherra er mjög dugleg að benda á að hér hafi orðið efnahagshrun. Ég spyr því: Er ekki rétt að við drögum lærdóm af þeirri miklu vinnu sem hefur verið lögð frá hruni í það hvernig við bætum íslenska stjórnsýslu og hvernig við aukum veg og virðingu Alþingis Íslendinga?

Mig langar líka að spyrja forustumann ríkisstjórnarinnar sem talar um virðingu Alþingis í þessari umræðu hvort henni þyki til eftirbreytni þau gífuryrði sem liðsmenn hennar, hv. stjórnarliðar, hafa viðhaft í þessari umræðu. Ég ætla að endurtaka hvað hefur verið sagt þar. Síðast í morgun kallaði hæstv. utanríkisráðherra nokkra þingmenn hér í sal talíbana. Í gær var því haldið fram að formaður þingflokks Framsóknarflokksins væri með geðklofa. Forseti lýðveldisins er kallaður ræfill (Gripið fram í.) og svo kom hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir í ræðustól og efaðist um að fólk hér inni væri með meðalgreind. Það er aldeilis orðbragð sem hv. þingmenn stjórnarliðsins og stuðningsmenn hæstv. forsætisráðherra hafa viðhaft í þessari umræðu. Svo koma stjórnarliðar hingað upp hver á fætur öðrum og tala um virðingu Alþingis. Það er ekki samboðið Alþingi Íslendinga að stjórnarþingmenn skuli tala með þeim hætti sem raun ber vitni.

Frú forseti. Við ræddum í síðustu viku mál sem deilt var mikið um í fortíðinni, vatnalögin, mál sem ég held að þáverandi stjórnarandstæðingar, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon o.fl., hafi talað um margfalt lengur en þetta mál hér. Því máli lyktaði þannig að það var sett í sáttafarveg af þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Fulltrúar allra þingflokka voru látnir setjast yfir það mál, ekki í tvo, þrjá daga heldur yfir lengri tíma, þar sem farið var yfir ágreiningsefnið. Menn rökræddu síðan hlutina fram og til baka og út kom mjög merkilegt álit sem fulltrúar allra þingflokka stóðu að. Það stóra mál var afgreitt og verður væntanlega afgreitt í fullri samstöðu eða hér um bil, kannski fyrir utan Hreyfinguna, úr sölum Alþingis og sem lög frá Alþingi Íslendinga. Þetta eru vinnubrögðin sem við eigum að viðhafa í málum af þessari stærðargráðu.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa rætt um að aðkoma þingflokka að umræðum um þetta mál hafi verið ansi takmörkuð. Við höfum margir lagt það til að þetta mál verði tekið úr þessum átakafarvegi, að sett verði þverpólitísk nefnd til að fara yfir það, jafnvel að nefndin geti gert það aftur, og við reynum að lenda þessu máli í sátt. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á árinu 2007 að mál sem þessi yrði að afgreiða í samkomulagi. Það sagði hæstv. fjármálaráðherra sem þá var í stjórnarandstöðu. — Nú er hæstv. fjármálaráðherra ekki í salnum, frú forseti, og ég hef óskað eftir því að hann verði kallaður til þessarar umræðu.

(Forseti (ÁI): Forseti getur upplýst að hæstv. fjármálaráðherra hefur verið gert viðvart um ósk þingmannsins, sem og hæstv. innanríkisráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra er í húsi en boðum hefur verið komið til hæstv. innanríkisráðherra.)

Frú forseti. Þetta er einfaldlega ekki nóg. Það er ekki nóg að komið sé boðum til hæstvirtra ráðherra. Maður spyr hér spurninga, við erum búin að gera það í tvo daga og fáum engin svör við spurningunum. (Forseti hringir.) Ætlar hæstv. forseti að beita sér fyrir því að hæstv. ráðherrar verði kallaðir til umræðunnar?

(Forseti (ÁI): Forseti hefur gert það sem í forsetavaldi er, (Gripið fram í.) að gera hæstv. ráðherrum viðvart um að þess sé óskað að þeir séu við umræðuna. (Gripið fram í.) Hyggst hv. þingmaður halda áfram ræðu sinni? )

Ég ætlaði að bíða eftir að hæstv. forseti fengi sér sæti áður en ég héldi áfram.

(Forseti (ÁI): Forseti spyr hv. þingmann hvort hann eigi ekki talsvert eftir af ræðu sinni. Nú háttar svo til að þegar eru nokkrir hv. þingmenn búnir að óska eftir því að veita andsvar við ræðu þingmannsins. Forseti upplýsti í morgun að fyrirhugað væri að gera hlé á þessum þingfundi frá kl. 13 til kl. 14 vegna matarhlés og nefndarfundar og ég spyr hv. þingmann hvort hann vilji halda áfram ræðu sinni nú í nokkrar mínútur, fram undir kl. 13, og gera þá hlé eða gera hlé á þessum tímapunkti.)

Ég mundi gjarnan vilja gera hlé á þessum tímapunkti og þakka frú forseta fyrir þetta. Ég tel nauðsynlegt að við gefum hæstv. ráðherra tóm til að koma til þessarar umræðu að loknu hléi.