139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefði ég getað gert eins og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og bara sagt við frú forseta að ég neitaði að svara fyrirspurnum hv. þingmanns. En við erum einfaldlega komnir lengra í lýðræðislegri umræðu innan Framsóknarflokksins en svo að við svörum ekki málefnalegum spurningum. Og þetta var málefnaleg spurning sem hv. þingmaður kom fram með.

Mikið er gott að vita til þess hversu áhugasamir þingmenn ríkisstjórnarinnar eru um þá miklu vinnu sem hefur átt sér stað innan Framsóknarflokksins í fjölmörgum málum enda er Framsóknarflokkurinn mjög lýðræðislega sinnaður flokkur með mjög öflugt innra starf eins og menn hafa heyrt í ræðum á þinginu þegar vitnað er til starfs þar.

En það vill svo til að eftir að þessi skýrsla kom fram varð hér efnahagshrun og það kom fram gagnrýni, ekki bara alþingismanna heldur alls samfélagsins, á það hvernig menn stóðu að málum fyrir hrun. Menn hafa komist að niðurstöðu um að veikja ekki Alþingi heldur styrkja og þess vegna er ég ekki sammála því að þessar valdheimildir eigi að vera á hendi forsætisráðherra (Forseti hringir.) heldur eigi það að vera í höndum okkar þingmanna, þar á meðal Marðar Árnasonar.