139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er mikið áhyggjuefni hversu illa gengur að fá hæstv. ráðherra til að svara spurningum sem þingmenn beina til þeirra í þessari umræðu. Einnig ítreka ég af umhyggju fyrir virðulegum forseta þær óskir sem hafa ítrekað komið fram um að hæstv. innanríkisráðherra verði við umræðuna. Það er ekki einungis að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hafi ítrekað bent á það í ræðu sinni áðan heldur var nánast allt gærkvöldið og í nótt verið að óska eftir viðveru hæstv. innanríkisráðherra. Við vitum að hann hefur efasemdir um þetta mál. Þær hafa ekki komið fram í umræðunni. Hann hefur ekkert tjáð sig, hann hefur ekki látið setja sig á mælendaskrá frekar en flestir aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn sem hafa ekkert um þetta mál að segja. Stjórnarráðið sjálft er hér til umfjöllunar en hæstv. ráðherrar þurfa bara ekkert að tala um það.

Ég beini því enn og aftur til virðulegs forseta að þessir ráðherrar verði kallaðir á vettvang. Ég nefni sérstaklega hæstv. innanríkisráðherra af því að ég hef ekki séð hann við umræðuna enn þá og það er mjög brýnt (Forseti hringir.) að fá skoðanir hans á þessu máli.