139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér hefur þótt skorta á að forseti fyrir hönd forsætisnefndar svaraði því hverjir stjórna þinginu. Hér hafa komið fram þingmenn eins og t.d. hv. þm. Helgi Hjörvar sem segir að auðvitað stjórni forseti þinginu á meðan það er mörgum öðrum þingmönnum nokkuð fullljóst að þinginu stjórnar hæstv. forsætisráðherra.

Það hlýtur að vera þannig því að þegar liðnir eru fjórir eða fimm dagar af þeim níu dögum sem menn höfðu til að klára þennan septemberstubb þá er sett mál á dagskrá sem bullandi ágreiningur er um og eftir því sem ég best veit er hæstv. forsætisráðherra sá eini sem talar af virkilega heilu hjarta fyrir því frumvarpi. Aðrir þingmenn stjórnarliðsins hafa ekki reynt að koma hingað upp og reynt að rökstyðja af hverju við (Forseti hringir.) sem gagnrýnum þetta ættum að skipta um skoðun og af hverju við ættum að vera tilbúin (Forseti hringir.) að semja um það, sem við erum klárlega tilbúin til ef við fáum rök fyrir því. En mér finnst að frú forseti skuldi þinginu það að lýsa því yfir hver stjórni þinginu.