139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðu um þetta mál um Stjórnarráðið. Ég hef óskað eftir því að nokkrir ráðherrar verði viðstaddir umræðuna. Hæstv. forsætisráðherra situr nú í salnum þannig að það er mjög jákvætt, en ég óska eftir því að hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson komi til fundarins. Ég óskaði eftir því í nótt en hann kom aldrei. Öðruvísi mér áður brá, frú forseti, þegar hann stóð í þessum ræðustól og heimtaði að ráðherra kæmi til umræðunnar. Þá var hann reyndar í stjórnarandstöðu og síðan hefur margt breyst. Þá óska ég eftir að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason komi líka til umræðunnar til að taka þátt í henni. Ég vil að allir þessir hæstv. ráðherrar taki þátt í umræðunni og svari þeim spurningum og þeim álitamálum og sjónarmiðum sem upp koma því að fyrr getum við ekki lokið umræðunni, frú forseti. Ef menn bara hlýða á umræðuna og segja ekki orð gengur það ekki. Svo óska ég eftir því að flutningsmaður þeirrar tillögu sem við erum að ræða, þ.e. meirihlutaálits hv. allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, verði viðstaddur umræðuna og taki þátt í henni á málefnalegan hátt, sé ekki — ég ætla ekki að segja meira svo að ég verði ekki dónalegur.

Áður en ég held áfram vil ég taka það fram að tveir hv. þingmenn, stjórnarliðar, hafa tekið þátt í umræðunni og það er jákvætt. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur verið mjög iðin. Ef fleiri væru þannig væri umræðan væntanlega búin.

Ég ætla að koma inn á einn hlut sem lítið hefur verið ræddur og ekkert hérna. Það sýnir hvernig alltaf koma ný sjónarmið. Ég vona að þetta sé nýtt sjónarmið. Það felst í því hverjir eru á launum hjá ríkinu við það að útbreiða pólitískar skoðanir. Nú eru 63 þingmenn kosnir til Alþingis og eru á launum við það að útreiða pólitískar skoðanir hver með sínu nefi. Þar er stjórn og stjórnarandstaða, stjórnarliðar eru náttúrlega fleiri en ekki mikið, það hallar ekki mikið á. Þá koma til fjölmiðlar og ráðuneyti. Ráðherrar hafa beitt ráðuneytum í sína þágu og mikið hefur verið kvartað undan því. Ég vil benda á það að ég reikna ekki endilega með því að vera stjórnarandstæðingur mjög lengi. Þeir sem eru núna í stjórnarliði gætu orðið stjórnarandstæðingar áður en þeir líta við þannig að menn þurfa að setja sig í báðar stellingar. Ráðuneytin eru oft notuð og það hefur verið mjög mikið gagnrýnt. Síðan eru fjölmiðlar, sérstaklega Ríkisútvarpið, sem er í eigu ríkisins og fjármálaráðherra skammtar fjárveitingar til. Starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu vita hverjir borga salt í grautinn hjá þeim þannig að þeir gagnrýna ríkisstjórnina ekkert mikið, eða minna en ella. Svo erum við með aðstoðarmenn, þeir eru allir pólitískt ráðnir. Nú er lagt til að auka enn frekar fjölda aðstoðarmanna þannig að þeir verði 23. Á móti verður náttúrlega að segja að formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa aðstoðarmenn líka sem koma þá inn sem starfsmenn ríkisins og útbreiða pólitískar skoðanir, þeir eru þrír núna eða hvað — ég þekki það ekki nákvæmlega. Alla vega er þarna hópur af fólki sem útbreiðir skoðanir andstæðar ríkisstjórninni og jákvæðar fyrir ríkisstjórnina. Það er meiningin núna að fjölga pólitískt ráðnum aðstoðarmönnum á ríkislaunum í 23. Það skekkir myndina mjög mikið. Stjórnarandstæðingar verða því í miklum minni hluta þeirra sem er borgað fyrir að útdeila skoðunum sínum. Þessu vara ég við og vil að menn átti sig á þessu. Ég vil að menn ræði þetta og hugleiði.

Þá kemur að spurningu til hv. þm. Róberts Marshalls, framsögumanns nefndarálits meiri hlutans, frú forseti. Ég sé hann ekki hérna. Ég er með ákveðnar spurningar til hans. (Gripið fram í.) Við erum að ræða mál hans, nefndarálit hans. Það vantar líka enn hv. innanríkisráðherra Ögmund Jónasson. Þetta mál varðar hann því að það fjallar um Stjórnarráðið. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill koma því til skila til hv. þingmanns að Ögmundur Jónasson er á leiðinni og Róbert Marshall er í húsinu og það er búið að koma skilaboðum til þeirra.)

Já.

(Forseti (ÞBack): Og hv. varaformaður nefndar er …)

Ég vil nefnilega spyrja hv. þm. Róbert Marshall að því hvernig honum lítist á þá hugmynd sem ég kom fram með einhverja nóttina, að nefndir þingsins ritstýri og semji frumvörp sem Alþingi semur og að ráðuneyti snúi sér til nefndanna til að semja og ritstýra frumvörpum í stað þess að semja þau hjá sér. Við þessa breytingu yrði að flytja marga starfsmenn frá ráðuneytunum inn í Alþingi og það yrði allt annar bragur á málunum vegna þess að væntanlega er stjórnarmeirihluti í hverri nefnd sem mundi stýra málinu en stjórnarandstæðingur í viðkomandi nefnd kæmi að því líka. Það yrði miklu meira samráð. Ég ætla að biðja menn um að skoða þessa hugmynd með opnum huga.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Hefur ræða hv. þm. Atla Gíslasonar kippt grundvelli undan frumvarpinu með því að víða í greinargerð með frumvarpinu er fullyrt að tillögur frumvarpsins byggi á starfi þingmannanefndarinnar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis? Er rétt sú fullyrðing hans að þetta frumvarp veiki Alþingi í stað þess að styrkja það?

Ég vildi gjarnan að hv. þingmaður kæmi í ræðu. Samkvæmt þingsköpum, 56. gr., hefur hann heimild til að koma strax inn í umræðuna til að svara í ræðu þessum athugasemdum, ekki í stutt andsvar þar sem jafnvel yrðu einhverjir útúrsnúningar.

Getur hv. þingmaður staðfest að hæstv. forsætisráðherra eða framtíðarforsætisráðherra geti flutt verkefni sem eru í ágreiningi frá ráðherra sem hann er á öndverðri skoðun við til annars ráðherra sem er honum sammála eða til sjálfs sín og þannig stuðlað að réttri niðurstöðu í skilningi hæstv. forsætisráðherra? Er þetta ekki alveg rétt?

Ég hef nefnt fjölda dæma eins og með jörðina stóru sem á að selja sem heyrir undir innanríkisráðherra og forsætisráðherra gæti þá flutt málið annað, til hæstv. iðnaðarráðherra eða til sjálfrar sín, tekið ákvörðun og síðan færi það aftur til baka.

Ég nefndi líka verkefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gagnvart Evrópusambandinu. Það verkefni mætti líka flytja frá viðkomandi ráðuneyti til t.d. forsætisráðuneytis eða utanríkisráðuneytis þar sem hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson mundi fjalla um það hvernig ætti að svara Evrópusambandinu um landbúnaðarmál. Er þetta ekki mögulegt samkvæmt frumvarpinu?

Svo vil ég spyrja hv. þingmann og nú er tíminn að renna frá mér: Er hann sammála því að frumvarpið, ef að lögum verður, stuðli að ótta og hræðslustjórnun? Ráðherrar mundu óttast að verða hreinlega sviptir ráðherratigninni því að það væri hægt að gera með einu pennastriki; þeim yrði bara sagt upp eða verkefnið sem ágreiningurinn stendur um yrði flutt frá þeim. Þetta mundu þeir vita og hefðu alltaf vofandi yfir sér.

Ég var með margar spurningar. Ég vildi spyrja hæstv. innanríkisráðherra en hann er ekki mættur þannig að ég verð að koma og taka aftur til máls. Það verður sennilega langt í það. Frú forseti, ég er með nákvæmar spurningar og umræðan getur ekki hætt fyrr en búið er að svara þeim almennilega, málefnalega en ekki með einhverjum skætingi um það hvernig mér lítist á stöðuna innan Framsóknarflokksins, eins og hér hefur komið fram. Það er ekki málefnalegt. Ég vil bara fá svar við þessum spurningum og helst í ræðu eins og ég sagði, samkvæmt þingsköpum er það mögulegt.