139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Forseti. Stundum þegar rætt er um spurninguna um lýðræði horfa menn á þetta út frá óskaplega þröngu sjónarhorni. Nú hefði verið gaman að hafa nærstaddan hæstv. innanríkisráðherra því ég hygg að við séum báðir áhugamenn um pælingar af þessu taginu. Það var nefnilega frægur fræðimaður í Bretlandi sem skrifaði grein sem hét „Tyrrany of the majority“, þ.e. ógnarvald meiri hlutans. Vitaskuld gengur lýðræðið út á það í sínu einfaldasta formi að meiri hlutinn ráði að lokum. Við gerum auðvitað ráð fyrir því á Alþingi að skorið sé úr um mál með atkvæði til að draga fram hvort meirihluta- eða minnihlutavilji sé fyrir tilteknu máli. Málið er hins vegar aðeins flóknara en það vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að minni hlutinn hafi aðkomu að málum.

Eitt af því sem minni hlutinn getur gert t.d. í máli eins og þessu sem er svo umdeilt, umdeilt í samfélaginu, á Alþingi, innan ríkisstjórnarflokkanna og í ríkisstjórninni, er einmitt að koma í veg fyrir þessa ógnarstöðu meiri hlutans. Dæmið sem ég nefndi áðan um atvinnuvegaráðuneytið skiptir mjög miklu máli, því sú staða var nefnilega uppi og gerði málið dálítið flókið að það var örugglega verulegur meiri hluti innan stjórnar sem kaus að sameina þessi ráðuneyti, en hinn pólitíski meiri hluti á Alþingi var ekki til staðar. Þá hafa menn sagt hér: Þetta er óeðlilegt. Það á ekki að vera þannig að einn eða tveir einstaklingar í stjórnarmeirihluta komi í veg fyrir það að meiri hluti stjórnarmeirihlutans nái sínu fram. Að mínu mati er þetta rangt. Það er miklu skynsamlegra að heimila aðkomu (Forseti hringir.) Alþingis að þessu, með einhverjum hætti. Það hefur gefist mjög vel í 40 ár.