139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að okkur greindi á um 2. gr. Það er út af fyrir sig alveg hárrétt. Ég var hins vegar að vonast til þess að við værum sammála um ákveðnar forsendur, værum sammála um að þessi grein fæli það í sér að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, en menn geta líka fallist á að í þessu felist ákveðinn sveigjanleiki. Svo mundu menn meta það með einhverju pólitísku mati hvort vægi heldur þyngra á vogarskálunum.

Um breytingartillöguna skal ég vera mjög skýr: Ég mundi ekki geta stutt hana. Ég tel að hún gangi allt of skammt. Að afgreiða hana í gegnum eina umræðu án þess að fara til nefndar, án þess að hún gæti síðan komið til annarrar yfirvegunar í þinginu finnst mér vera allt of skammt gengið.