139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Umræða á Alþingi þjónar þeim tilgangi að leiða saman mismunandi sjónarmið frá stjórn og stjórnarandstöðu. Til þess er umræða. Þingsköpin taka sérstakt mið af því í 56. gr. þannig að forseti getur hleypt að ráðherra sem málið varðar eða framsögumanni svo að umræða geti átt sér stað. Þessi langa einræða sem hér hefur átt sér stað er engin umræða vegna þess að það svarar ekki einn einasti maður. Menn koma reyndar hingað í andsvör og eru með spurningar en ekki svör á meðan stjórnarandstaðan, eins og hennar skylda er, fer í gegnum frumvarpið og sér í því ákveðnar hættur og vill fá svör við því hvort þær hættur séu raunverulegar. Hér er t.d. mjög einföld spurning: Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að gera með þetta frumvarp þegar búið er að samþykkja það?