139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:12]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson las upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis allmikinn kafla til stuðnings afstöðu sinni gegn þessu frumvarpi.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er skrifuð af ákveðnu tilefni. Hún á sér rætur í atburðum sem hér urðu fyrir nokkrum árum þegar hér varð stærsta og mesta efnahagshrun sem þessi þjóð hefur gengið í gegnum, mesta siðferðislega hrun, mesta hugmyndafræðilega og pólitíska hrun með gríðarlegum afleiðingum fyrir þjóðina sem ekki sér fyrir endann á.

Þessi skýrsla rannsóknarnefndarinnar sem gefin var út í átta bindum er í raun og veru efnahags- og atvinnusaga Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn. Þar er hún skrifuð og aldrei held ég að áður hafi verið gefið út jafnítarlegt rit um þann ágæta flokk og þetta átta binda rit. Ég get því varla hugsað mér meiri skrumskælingu á þessari skýrslu en að aðilar hrunsins, og þá sjálfstæðismenn, noti hana sem rökstuðning fyrir bættu siðferði, bættri pólitík og bættri stjórnsýslu á Íslandi. Það er varla hægt að fara verr með þetta ágæta rit en svo. Hvað um það, virðulegi forseti, mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar hvort hann telji ástæðu til að breyta lögum um Stjórnarráðið. Hvaða helstu ágalla sér hann á stjórnarráðslögunum í dag, hverju þarf helst að breyta, hvernig á að gera það og telur hann nauðsyn til að grípa til slíkra aðgerða nú þegar eða innan skamms?