139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu efnahags- og viðskiptaráðherra að hér sé um að ræða viss tímamót frá því sem áður var á dagskrá. Þetta mál olli miklum deilum í vor og var eitt af samkomulagsmálum um að fresta í fyrravor. Því var frestað fram á þennan svokallaða septemberstubb. Það er óhætt að segja að róðurinn hafi verið þungur til að byrja með en nákvæmlega eins og hæstv. ráðherra lýsti tókst að lokum mjög gott samkomulag um hvernig málið yrði afgreitt.

Þrátt fyrir að komin sé lausn í málið og að við í stjórnarandstöðunni munum á engan hátt standa í vegi fyrir því eru gjaldeyrishöft, nákvæmlega eins og hæstv. ráðherra lýsti, alvarlegur hlutur og mikið þjóðfélagsböl, getum við sagt. Það koma upp alls konar bjaganir í hagkerfinu sem leiða til spillingar og þess að auðæfunum er endurúthlutað á óréttlátan hátt að mörgum finnst. Í grunninn erum við á móti gjaldeyrishöftum en við höfum aftur á móti skilning á því að þau er ekki hægt að afnema einn, tveir og þrír. Sú leið sem er sett hér fram sem er árangur samræðna og samninga er það skásta sem er í boði. Ég lýsi yfir ánægju minni með málalyktir og þakka hæstv. ráðherra fyrir samstarfið í því, auk þess sem formaður efnahags- og skattanefndar hefur staðið sig mjög vel í að leiða þetta mál til lykta.