139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Allt frá árinu 1971 hafa verið ráðnir aðstoðarmenn í ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Hér er í fyrsta sinn verið að ganga formlega frá því hver staða þeirra er og hversu margir þeir megi vera í Stjórnarráði Íslands.

Þetta er heimildarákvæði eins og hér er sagt. Í reynd er litlu verið að breyta miðað við það sem tíðkast hefur á undanförnum árum en verið er að setja um þetta ramma og eftir því hefur einmitt verið kallað, ekki aðeins á Íslandi heldur í öllum löndum í kringum okkur. Nægir þar að benda á nýlega skýrslu OECD um þörfina á því að formgera það pólitíska hlutverk sem ráðherra er ætlað til stefnumörkunar og styrkja hann í því hlutverki.