139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[21:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Íbúðalánasjóður hefur lengi vel og eiginlega alltaf lánað verðtryggt og til langs tíma. Þannig hefur borgurum þessa lands sem ætla að kaupa sér íbúð verið stýrt inn í ákveðinn farveg verðtryggingar og langra lána sem þýðir mjög hæga eignamyndun.

Ég hlýt að fagna því þegar Íbúðalánasjóður lánar óverðtryggt vegna þess að ég vil að borgararnir hafi fleiri valkosti. En ég vil hins vegar leggja áherslu á það að Íbúðalánasjóður kynni muninn á lánskjörum vegna þess að óverðtryggð lán geta verið hættuleg ef það kemur verðbólguskot, nema að menn hyggist hlunnfara sparifjáreigendur sem er hinn endinn. Ég segi já.