139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Umræðan um þessa breytingartillögu er á miklum villigötum og er bersýnilegt að menn hafa ekki alveg sett sig inn í heildarsamhengi hlutanna. Hér er verið að tala um það sem sérstök kostnaðarrök að þessi breyting, og hún beinist sérstaklega að Reykjavík, mundi hafa í för með sér mikinn aukinn kostnað. Í fyrsta lagi er það þannig að starfandi kjörnir fulltrúar í Reykjavík eru miklu fleiri en 15 þannig að kostnaðaraukinn er í fyrsta lagi ekki eins og menn eru að halda fram.

Í öðru lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að þessi breyting taki gildi við aðrar sveitarstjórnarkosningar eftir gildistöku laganna, þ.e. árið 2018.

Í þriðja lagi er það þannig að menn segja að borgarstjórn Reykjavíkur eigi að ákveða fjölda fulltrúa í borgarstjórn. Af hverju er þá ekki öll 11. gr. tekin út vegna þess að hún setur almennan ramma um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum alveg frá hinum smæstu til hina stærstu, setur ákveðinn lágmarksfjölda og ákveðinn hámarksfjölda. Það sem við erum að benda á er að það er fullkomið ósamræmi milli fjölda fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur sérstaklega í þessari grein og í öllum öðrum sveitarfélögum landsins hins vegar. (Gripið fram í: Vel mælt.)