139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[13:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér koma vatnalög til lokaatkvæðagreiðslu sem eru annars vegar brottfall laga frá árinu 2006 og hins vegar breytingar á þeim merkilegu og góðu vatnalögum sem staðist hafa tímans tönn frá 1923. Sem betur fer og fyrir það ber að þakka og er Alþingi til sóma að fullt samkomulag hefur verið um þetta mál allt saman á ferð þess í gegnum þingið. Fyrir það vil ég alveg sérstaklega þakka meðnefndarmönnum í iðnaðarnefnd þar sem faglega og vel hefur verið unnið að málum.

Hér er, virðulegi forseti, ein breytingartillaga sem líka var sátt um sem er sem sagt um mál sem sætir kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, frumvarp sem við höfum nýlega gert að lögum á hinu háa Alþingi. Eins og ég segi er líka fullt samkomulag um þá breytingartillögu.

Ég endurtek þakkir mínar til nefndarmanna fyrir farsælt og gott samstarf á þessum þingvetri.