139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á Stjórnarráði Íslands. Ég vil byrja á því að taka undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að málið hefur skánað mjög mikið í meðförum hv. allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. Ég sakna þess hins vegar að sjá ekki hvað þetta muni þýða kostnaðarlega séð. Ég hafði gert mér miklar vonir um að það kæmi einmitt fram í nefndaráliti meiri hlutans hvað þetta mundi nákvæmlega kosta fyrir ríkissjóð.

Ég velti því líka fyrir mér eftir alla þá umræðu sem við höfum átt og hefur staðið yfir í nokkra tugi klukkutíma að aðaldeilurnar snerust um 2. gr. frumvarpsins. Ég þarf svo sem ekki að rifja upp hina svokölluðu forsætisráðherravæðingu á löggjafanum og foringjaræðinu sem átti að birtast í frumvarpinu. Síðan hafa verið fluttar breytingartillögur um að úr því yrði dregið og breytingar á Stjórnarráðinu koma þá aftur núna til þingsins í formi þingsályktunartillögu sem ég tel vera mjög til bóta. [Kliður í þingsal.]

Ég tek líka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni hvað snýr að því að ég er ekki sáttur við allt í þessu máli án þess að ég ætli að fara efnislega yfir hverja grein. Ég held að það sé mjög mikilvægt að rifja upp þá umræðu sem fór hér fram … Virðulegi forseti, hvað eru margir fundir í þingsal? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal. Gefið þeim ræðumanni hljóð sem flytur mál sitt.)

Ég held að það sé ágætt fyrir okkur að rifja aðeins upp alla þá gagnrýni sem kom og við ræddum um hver staða löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu væri í raun og veru. Við eða a.m.k. ég stóð í þeirri trú að löggjafinn og það vald sem löggjafinn hefur væri virt. Hins vegar hef ég orðið vitni að því í dag að svo er ekki. Hefði ég áttað mig á þeirri stöðu sem ég upplifi núna hefði ég kannski flutt margar öðruvísi ræður en ég flutti um málið. Það er mjög bagalegt að það skuli gerast hér og að við skulum verða vitni að því að einn hæstv. ráðherra komi með mál til þingsins, það fari í eðlilega meðferð í þinginu, fari til þingnefnda og sé afgreitt úr nefnd en þegar hæstv. ráðherra sér að málið er ekki eins og hann vildi hafa það þá virðist vera gert samkomulag við hæstv. forseta, eða ég veit ekki við hvern, um að taka málið af dagskrá því að eins og hv. þingmenn vita þá er forseti þingsins sá sem ákveður dagskrá þingsins.

Ég mótmæli því sem hæstv. forseti sagði áðan að málið hefði ekki verið útrætt og hótað hefði verið löngum umræðum um málið. Það er ekki rétt. Ég spurði þingvörð að því … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hefur lýst því yfir að hann tók þá ákvörðun eftir að boðaðar voru langar umræður um þetta ákveðna mál að hann setti það ekki á dagskrá. Það er ákvörðun forseta. Það er enginn sem segir forseta fyrir verkum. Hann tekur ákvarðanir sínar sjálfur og hefur gert það.)

Virðulegi forseti. Ég geri ekki athugasemdir við það sem hæstv. forseti segir, en ég vildi hins vegar koma því skýrt á framfæri að þegar umræðu um málið var frestað í morgun þá gerði ég mér sérstaka ferð af því að ég var að fylgjast með þessari umræðu og ræddi við þingvörðinn sem sat hér og spurði: Hvers vegna var málinu frestað? Var það vegna þess að það voru margir eftir á mælendaskrá? Nei, það var ekki vegna þess að það voru margir á mælendaskrá. Mælendaskráin var tæmd. Málinu var frestað eins og það var orðað vegna tæknilegra atriða, þ.e. einn hv. þingmaður hafði boðað breytingartillögu við málið og til að hún mætti ná fram að ganga varð að klára að vinna þá tillögu og þess vegna var málinu frestað. Mælendaskrá um þetta mál var tæmd. Það er þess vegna sem ég geri athugasemdir við þetta.

Ég tel núna, virðulegi forseti, að ég sé búinn að koma sjónarmiðum mínum sterklega á framfæri. Ég ætla að vona innilega að þetta sé í fyrsta og síðasta sinn sem ég verð vitni að því að svona vinnubrögð séu viðhöfð á Alþingi. Það hefur engan tilgang fyrir okkur að standa hér og ræða hvert raunverulegt vald löggjafans er gagnvart framkvæmdarvaldinu og hvert eftirlitshlutverkið á að vera þegar hlutirnir eru með þessum hætti.