139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[16:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að það er dálítið sérstakt hvað stórar, miklar og margar breytingartillögur koma fram á síðasta degi við 3. umr. um þetta frumvarp. En þannig er það og ég vona að það sé vegna þess að almenn samstaða er um það meðal allra flokka að þetta séu þá góðar tillögur.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hv. formann samgöngunefndar í fyrra andsvari mínu hvers vegna talan sé hækkuð. Í frumvarpinu er talað um að minnst 20% af þeim sem eiga kosningarrétt í sveitarfélagi geti óskað eftir almennri atkvæðagreiðslu en hér er talað um allt að þriðjung, þ.e. að sveitarfélag geti valið að fara upp í 33%. Hvers vegna 33% en ekki 40% eða 50%? (Gripið fram í: Eða 5%?) Eða 5% — ég efast ekki um að Hreyfingin vildi hafa það þannig, eða jafnvel 0% og enga sveitarstjórnarmenn heldur hafa bara almennar kosningar um allt. Ég spyr einfaldlega, virðulegi forseti, vegna þess að í 500 manna sveitarfélagi virðist mér sem það dugi að 100 manns fari fram á kosningar, sveitarfélagið getur miðað við 33%, sem eru þá 165 manns. Það þarf þá ekki nema tvær til þrjár götur til að safna saman 150–165 manns í 500 manna sveitarfélagi til að krefjast almennra íbúakosninga. Því langar mig að spyrja og fá svar frá hv. formanni samgöngunefndar: Hvers vegna var þessi tala sett inn við 3. umr. á lokaspretti en ekki hærri eða lægri eftir atvikum?