140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Eftir þá miklu erfiðleika sem við gengum í gegnum á haustdögum 2008 var ljós í myrkri. Innviðir samfélagsins voru sterkir og allar líkur bentu til þess að uppbyggingin gæti verið hröð og þjóðinni til hagsældar. Þá þurfti að skapa nýja stefnu og festu til langtíma litið, forgangsraða í ríkisrekstri og skera niður gæluverkefni en fyrst og síðast að standa vörð um grunnþætti ríkisins.

Sú ríkisstjórn sem ekki forgangsraðar verkefnum til að grunnstoðir samfélagsins virki og standi af sér áföll á að segja tafarlaust af sér. Ríkisstjórn hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, sem nú gengur úr sal, og hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, sem situr ekki hér í salnum, hafa tekið ákvörðun um að stjórna landinu með stjórnleysi sem á rætur að rekja til anarkisma. Stjórnleysisstefna einkennist fyrst og síðast af andstöðu við ríkjandi samfélag, lög og hefðir, og leiðir síðar til upplausnar og ringulreiðar.

Ríkisstjórnin hefur hunsað tvær bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur, hunsað úrskurð Hæstaréttar í stjórnlagaþingsmálinu. Hæstv. umhverfisráðherra hefur hlotið dóm, hæstv. forsætisráðherra hefur brotið jafnréttislög, hæstv. fjármálaráðherra hefur dælt ríkisfé inn í vonlausar bankastofnanir og tryggingafélög og eru mörg verka hans til skoðunar hjá ESA.

Þau ríkisstjórnarfrumvörp sem komið hafa fyrir þingið eru öll því marki brennd að veikja löggjafann og færa völd til framkvæmdarvaldsins þrátt fyrir skýlaus skilaboð í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að styrkja ætti löggjafann. Hæstv. forsætisráðherra ætlar sér að færa stjórnarskrárvald löggjafans úr þingsölum þrátt fyrir að stjórnarskrárákvæði geri það ómögulegt. Ríkisstjórnin ætlaði jafnframt að færa löggjafarvaldið frá Alþingi til forsætisráðuneytisins í stjórnarráðsmálinu og jafnframt ætlaði ríkisstjórnin að umbylta fiskveiðistjórnarkerfinu og skapa gríðarlega óvissu í þeirri atvinnugrein. Ríkisstjórnin heldur til streitu vitavonlausu aðildarferli að ESB með gríðarlegum kostnaði í mikilli andstöðu við landsmenn og sér ekki að Evrópa brennur ásamt evrunni. Þrátt fyrir það situr hæstv. forsætisráðherra hér í kvöld og telur að mikill meiri hluti landsmanna sé á bak við þessa umsókn. Er hægt að sjá málið í verra ljósi?

Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni áðan að samskipti á Alþingi hefðu aldrei verið verri en nú. Þetta segir sá þingmaður sem hefur rúmlega 30 ára þingreynslu. Frú forseti. Það mega sumir kasta grjóti úr steinhúsi. Þetta var kallað réttur stjórnarandstöðunnar til að tjá sig þegar hæstv. ráðherra var þingmaður en heitir málþóf nú.

Nú síðast í dag fór sjálfur hæstv. forseti Alþingis fram með þá skoðun að breyta ekki áratugahefð við setningu Alþingis. Hvert sem litið er ríkir stjórnleysisstefna hjá ríkisstjórnarflokkunum. Í stað þess að viðurkenna vanmátt sinn og gefast formlega upp gagnvart verkefninu skal gamalgrónum reglum, siðum og lögum breytt til að ríkisstjórnin geti lifað örfáar vikur enn.

Ég minni á að Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn síðan á vordögum 2007 eða í rúmlega fjögur ár. Það þýðir ekkert fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að koma hér fram og bera ekki ábyrgð á stjórnarathöfnum liðinna fjögurra ára. Ég minni á að enn sitja tveir hrunráðherrar í ríkisstjórn Íslands, hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Kæru landsmenn. Er nema von að illa gangi að endurreisa þjóðina og landið allt?

Hæstv. fjármálaráðherra er mikið fyrir það að hrósa sjálfum sér og oft og tíðum er það barnalegt hrós. Nú síðast í fréttum í Ríkisútvarpinu í morgun hældi hann sér fyrir góðan árangur í ríkisfjármálum. Ég minni á að þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt í ræðu áðan að Framsóknarflokkurinn hefði staðið fyrir því að byggja upp áliðnað og gott fiskveiðistjórnarkerfi þá kemur 80% af ríkistekjum inn í ríkiskassann nú af þessum starfsgreinum. Það er einkennilegt að þær atvinnugreinar sem þó halda lífi í þjóðinni ásamt ferðamannaiðnaðinum séu talaðar niður. Nú virðist sem spá hæstv. forsætisráðherra um harðan frostavetur sé í uppsiglingu. Atvinnuleysi, landflótti, hópuppsagnir, skattlagning, niðurskurður, ruðningsáhrif hækkunar þeirra vöruflokka sem reiknaðir eru inn í vísitölu neysluverðs sem leggjast beint á verðtryggð húsnæðislán.

Við Íslendingar eigum gnótt tækifæra. Hér þarf nýja, framsýna og kjarkaða ríkisstjórn. Við þurfum að forgangsraða, við þurfum að standa vörð um heimilin, atvinnuuppbyggingu, menntakerfið, heilbrigðisgeirann, lögregluna, dómstólana og Landhelgisgæsluna. Við þurfum að standa vörð um auðlindir okkar, skilgreina hverjar þær eru og hvernig eigi að nýta þær. Þær þurfum við einnig að tryggja með sérstakri lagasetningu.

Ágætu landsmenn. Ég óska ykkur allra heilla með ósk um að blessuð nýárssól færi okkur heill og hamingju og nýja ríkisstjórn. Það verður að rjúfa kyrrstöðuna. Gerum það saman.