140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er erfitt að gera viðbótarsparnaðarkröfu á opinberan rekstur sem þegar hefur lagt mikið af mörkum, og það er öllum ljóst til dæmis í tilviki Landspítalans. Það er ekkert auðvelt en hér er þó um að ræða um 1,5% af grunninum sem þessar stofnanir starfa á á þessu ári. Það er líka munur á því frá því sem áður var að nú verður að fullu tekið tillit til verðlagsbreytinga, gengisbreytinga og magnaukningar í kerfinu eftir því sem hún er metin. Það harkalega umhverfi sem við settum á og var óumflýjanlegt árin 2009, 2010 og fram á 2011 er nú að breytast á ýmsan hátt.

Hafa ber í huga að það skiptir máli í hvaða heildarsamhengi fjárveitingarnar eru þegar að því kemur að nota þær. Ég á mér þá trú að þetta sé hægt án þess að ganga á grundvallarþjónustuna sem við viljum standa vörð um en það verður erfitt, og að hvergi verði farið niður fyrir öryggismörk enda stendur það ekki til. Komi í ljós að í einhverjum tilvikum sé komið niður fyrir þau mörk verður það að sjálfsögðu skoðað hjá hv. fjárlaganefnd sem og málin í heild sinni.

Leggist okkur eitthvað til verðum við að sjálfsögðu ekki í vandræðum með að koma þeim fjármunum fyrir en eins og málin horfa núna er hér lagt fram frumvarp sem er ábyrgt, sem nær þeim markmiðum sem við þurfum að setja okkur að ná en gerir það eins mildilega og nokkur kostur er í þessum efnum.