140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hélt að ég væri að koma aftur í andsvör en ég get huggað hann með því að svo er ekki, ég er að koma í ræðu. Ég byrja á því að þakka hæstv. ráðherra greinargott yfirlit yfir það frumvarp sem hann hefur lagt fram. Þótt ég sé á margan hátt á annarri skoðun um innihald þess en hæstv. ráðherra gerði hann ágætlega grein fyrir sjónarmiðum sínum og þeim áherslum sem frumvarpið inniheldur.

Við eigum ekki að fara í grafgötur með að það er gríðarlegt ákall eftir því úti í þjóðfélaginu að einstaklingar fái tækifæri til að bjarga sér á sínum eigin forsendum. Það sjáum við hvarvetna á ýmsum merkjum sem berast til íslenskra stjórnmálamanna að það er sú krafa sem er hvað hörðust í samfélaginu í dag.

Kallað var eftir því undir umræðum um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í gær að stjórnarandstaðan þakkaði ríkisstjórninni fyrir gríðarlegan árangur af starfi hennar, sérstaklega því sem lyti að fjárlögum íslenska ríkisins. Um tíma skynjaði ég gríðarlega mikla ósk um viðurkenningu á þeim störfum sem unnin hefðu verið. Af því tilefni vil ég segja að það ber að þakka þeim sem þakka ber. Ég hefði fyrst og fremst viljað þakka íslenskum almenningi fyrir að hafa nú í þrjú ár lagt á sig þær byrðar sem á herðar honum hafa verið lagðar af íslenskum stjórnvöldum. Þar er þolinmæðin mest, þar er þrautseigjan mest og ber að þakka almenningi á Íslandi fyrir það.

Það gengur ekki að standa í ræðustóli Alþingis og hafa þau orð um gagnrýni á gjörðir stjórnvalda hverju sinni að segja það sé sama hvað hver segi, hér sé allt á uppleið. Okkur birtist allt annar veruleiki í viðbrögðum íslensks almennings um þessar mundir. Það eru væntingar um betri tíð og hafa verið lengi. Við sjáum þær mælingar sem gerðar hafa verið og komist hafa í umræðu um vanskil einstaklinga á Íslandi. Um 26.000 manns eru komnir á þá skrá. Segir það ekki mönnum eitthvað um grunninn að mótmælum við þeirri forgangsröðun sem segja má að hafi verið? Segir það okkur ekki nokkra sögu þegar við horfum á samsetninguna á vanskilaskránni að gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá 16.900 eða 17.000 manns? Segir það okkur ekki töluverða sögu að aldurshópurinn sem hér um ræðir er á bilinu 30–50 ára? Segir það okkur ekki allnokkra sögu að þeir sem er í mestum vanskilum eru helst einstæðar mæður og einstæðir feður? Getum við ekki dregið einhverjar ályktanir af búsetu fólks sem lendir á þessari skrá? Hlutur Reykjaness er áberandi í þeim efnum og eins Suðurlands. Hlutfallið er líka verulega hátt á höfuðborgarsvæðinu. Það sem vakti sérstaka athygli mína var að hátt í 6% fólks á vanskilaskrá er búsett erlendis, sem segir okkur að hluti Íslendinga, hátt í 4.000 manns, flýr til útlanda undan eigin skuldum og reynt er að innheimta hjá honum.

Samkvæmt þeirri greiningu getum við sagt að minnsta áhættan á því að lenda á vanskilaskrá sé ef maður er áttræð, einhleyp kona, búsett á Norðvesturlandi. Þar eru minnstu líkurnar á því að lenda í þeim hremmingum sem vanskilaskráin opinberar að hafi dunið yfir íslenska þjóð. Það er beint samasemmerki á milli (Velfrh.: Það er gott kjördæmi.) þróunarinnar á vanskilaskránni og atvinnuleysis í landinu. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu, segja sumir hv. þingmenn.

Væntingar fólks eru um að þessu fari að linna. Því miður verð ég að segja að það frumvarp sem við höfum fengið í hendur eru ákveðin vonbrigði að því leyti að þar eru áherslur töluvert svipaðar því sem áður hefur verið. Sömuleiðis eru áherslur í umræðunni um frumvarpið sambærilegar því sem áður hefur verið, ekki bara hér og nú eða á síðasta ári, heldur mörg ár þar á undan. Þar er þras pólitíkusa og annaðhvort er allt bjart eða allt á leið til fjandans.

Oft og tíðum spyr maður sig af hverju ekki megi segja hlutina eins og þeir eru og viðurkenna að í frumvarpinu felist auknar álögur á fólk. Ætlast er til þess að byrðar verði áfram bornar, líka í fyrirtækjunum. Við getum nefnt ýmis atriði í frumvarpinu sem staðfesta það að sjálfsögðu. Hvað þýðir það að lækka frádráttarbæran viðbótarlífeyrissparnað annað en að maður fær aukna skattheimtu á hluta þess fjár sem maður hefðir annars lagt inn í lífeyrissjóðinn? (Gripið fram í.) Hvað þýðir það að leggja aukna krónutölu á nefið á gjaldendum á Íslandi í framkvæmdasjóð, í útvarpsgjald, þegar fyrir liggur að útvarpsgjaldinu er ekki einu sinni öllu skilað til útvarpsins heldur rennur stór hluti þess í ríkissjóð? Það snýst ekkert um hvort ég vilji þetta eða ekki, hv. þm. Magnús Orri Schram. Ég vil að menn leggi spilin á borðið og viðurkenni hvað í þeim felst, ekki hvað hver og einn vill og reyni að draga menn niður í háði og spotti. Ræðum hlutina eins og þeir eru. Að sjálfsögðu eru þetta auknar álögur, viðurkennum það bara. Það eiga þeir að gera sem bera á því ábyrgð en ekki draga niður umræðuna með þeim hætti sem gerð er tilraun til.

Hvað þýðir það að gera auknar arðsemiskröfur á Landsvirkjun, Rarik, Póstinn, Orkubú Vestfjarða? Það standa engir undir þeim aðrir en notendur. Fyrirtækin hljóta með einhverjum hætti að velta auknum kröfum um arð út í verðlagningu á vöru sinni eða þjónustu.

Sömuleiðis munu þau áform sem uppi eru um niðurskurð í rekstri ríkisins þýða uppsagnir á fólki. Þá eiga menn bara að ræða það heiðarlega.

Ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra að ég hefði áhyggjur af áframhaldandi hallarekstri og skuldsetningu ríkissjóðsins þrátt fyrir að í rauninni hafi verið mjög almenn samstaða um að það væri forgangsatriði að vinna bug á því. Maður spyr sig oft og tíðum hvernig standi á því að áherslurnar sem koma fram og birtast í fjárlögum skili sér ekki betur út til fólksins en raun ber vitni. Af hverju er ekki meiri skilningur á því sem verið er að gera? Ég tel að það eigi sér stoð í því að fyrirheit um tilteknar aðgerðir hafi ekki gengið eftir. Án þess að fara út í eitthvert pólitískt þras í þeim efnum nægir að nefna umræðu um hina margfrægu skjaldborg. Upplifun almennings í landinu er sú að það hafi ekki gengið sem gefin voru fyrirheit um. Það er misræmi í orðum og efndum stjórnmálamanna, misræmi á milli þess sem þeir hafa haldið að fólki í þeim hrunadansi sem staðið hefur yfir og þess sem blasir við þegar við lítum yfir sviðið.

Ég ætla ekki að fara í mikinn samanburð eða útleggingar á því sem stjórnarherrarnir hafa sagt heldur leyfa mér einfaldlega að vitna til ákveðinna atriða sem standa svart á hvítu; í fyrsta lagi í undirrituðum yfirlýsingum frá ríkisstjórninni og í öðru lagi samþykktir sem gerðar hafa verið um framgang mála. Ég leyfi mér svo að síðustu að vitna til úttektar frá Hagstofu Íslands varðandi skuldsetninguna.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði í umræðum á Alþingi í mars síðastliðnum að það drægi senn til góðra tíðinda í Þingeyjarsýslum, að mikið verk biði Alþingis og íbúa fyrir norðan við að undirbúa samfélagið undir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Í framhaldi af þeim orðum — ég vil taka það fram, forseti, að ég dreg ekki í efa góðan vilja hæstv. ráðherra til að þarna fari hlutir á hreyfingu — og í tengslum við þá umræðu sem átt hefur sér stað um atvinnumál í Þingeyjarsýslum var gerð viljayfirlýsing milli ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Sú viljayfirlýsing var gerð 25. maí síðastliðinn. Hver skyldi inngangur hennar vera? Hann er sá að þessir aðilar, þ.e. ríkisstjórn Íslands og fulltrúar íbúa í Norður-Þingeyjarsýslum, eru sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur. Það er undirrituð yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar Íslands. Hluti af þeim pakka var sá að greina þörfina fyrir uppbyggingu og styrkingu innviða o.s.frv. Hvernig hefur því reitt af? Hvaða skilning leggja íbúar í Þingeyjarsýslum í það plagg sem við ræðum í dag, fjárlagafrumvarpið? Er það í tengslum við undirritaða yfirlýsingu sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar? Ekki er sá skilningur uppi á borðum fyrir norðan, þvert á móti. Tillaga um áframhaldandi tugmilljóna niðurskurð í heilbrigðismálum á svæðinu, í löggæslu o.s.frv., er ekki sá skilningur sem íbúar í Þingeyjarsýslum lögðu í það samkomulag sem gert var við ríkisstjórnina. Það er ekkert skrýtið þó að menn bregðist við og treysti illa því sem frá stjórnvöldum kemur þegar svona háttar til.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna það sérstaklega, með tilliti til umræðu sem spannst í andsvörum áðan milli hv. þm. Þórs Saaris og hæstv. fjármálaráðherra, hvort áhrifin af niðurskurði á Landspítala hafi verið metin, að fjárlaganefnd Alþingis samþykkti samhljóða í nóvember 2010 að láta gera úttekt á samfélagslegum áhrifum efnahagshrunsins og framkvæmd efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar til að geta svarað spurningum eins og þeim sem hv. þm. Þór Saari bar fram. Út á hvað átti sú vinna að ganga? Verkefnið átti að felast í því að meta áhrif efnahagshrunsins eins og það kemur fram í niðurskurði ríkisútgjalda, bæði heildaráhrifa á samfélagið og einstaka landshluta, karla og konur, greina niðurskurðinn í ríkisútgjöldum, starfsmannafjölda o.s.frv. og reyna að nota það tæki til að meta áhrifin af þeim tillögum sem fram kæmu í fjárlögum hvers árs. Gert var ráð fyrir því að því verkefni yrði lokið á Jónsmessu árið 2011, þ.e. fyrir nokkrum mánuðum á þessu ári. Við höfum ekki séð staf á blaði um það mál enn þá. Það hefði verið mjög æskilegt að hafa það, ekki síst í ljósi þess að við skerum áfram niður á þessum sviðum sem mun hafa þau áhrif sem komu fram í ræðum manna í andsvörum áðan.

Ég vil líka nefna eitt atriði sem lýtur að sveitarfélögum almennt í landinu af því að hæstv. fjármálaráðherra gerði samstarf sveitarfélaga og ríkisins á sviði efnahagsmála að umtalsefni. Í fjárlögum ársins 2011 er 700 millj. kr. aukaframlag til aðstoðar við fjárhagslega illa stödd sveitarfélög. Þegar það var samþykkt var skilningur Alþingis sá að það gengi til þeirra sveitarfélaga sem illa væri komið fyrir. Mér er kunnugt um að fjárhaldsnefnd Álftaness hefur átt viðræður við lánardrottna þess sveitarfélags, m.a. um niðurfellingu skulda og annað. Þar var gert ráð fyrir því að ríkið mundi veita víkjandi lán inni í þeim pakka. Nú er staðan allt önnur. Nú er gert ráð fyrir því að af þessu 700 millj. kr. framlagi verði teknar 300 milljónir af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og settar til illa staddra sveitarfélaga. Hvaða áhrif mun það hafa? Jú, þau sveitarfélög í landinu sem eru hvað verst stödd fjárhagslega eiga að aðstoða verst stadda sveitarfélagið í landinu, Álftaneshrepp, við að greiða úr skuldum sínum. Með öðrum orðum: Það á að gera alla að aumingjum. Það er ekki nokkur einasta skynsemi í þeirri nálgun á málið. Þau sveitarfélög sem munu gjalda fyrir það eru þau sem 700 millj. kr. framlagið átti að aðstoða.

Jafnframt eru birt fyrirheit um að þetta sérstaka skuldaframlag eigi að lækka á komandi árum, um helming á næsta ári o.s.frv. Í sjálfu sér er ekki hægt að gera athugasemdir við þá fyrirætlun stjórnvalda vegna þess að sveitarfélögin ættu þá að geta búið sig undir það, en á þessu ári, 2011, hefur verið reiknað með allt öðrum þáttum en þessum.

Að lokum vil ég nefna útreikninga Hagstofu Íslands sem birti í byrjun september þjóðhagsreikninga fyrir árið 2010. Hvað kemur fram í því? Þar kemur fram að hallarekstur ríkissjóðsins hafi aukist þvert á áætlanir stjórnvalda og AGS. Samkvæmt þjóðhagsreikningunum jókst hallareksturinn á árinu 2010 um 20 milljarða. Það er niðurstaða sem gengur í raun gegn inntaki efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS, þ.e. að koma böndum á skuldasöfnunina og gera ríkisfjármálin sjálfbær. Það er áhyggjuefni ef svo er. Þótt færa megi rök fyrir ýmsum batamerkjum sem sjást í ríkisreikningnum, eins og hæstv. ráðherra hefur gert að umtalsefni, eru ýmsir þættir í þessu sem lúta sérstaklega að einskiptiskostnaði þess eðlis að full ástæða er til að hafa áhyggjur af þeim þætti málsins.

Ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra þá þróun sem við sjáum m.a. í fylgiritinu með fjárlagafrumvarpinu að nettóskuldastaða ríkissjóðsins fer því miður versnandi ár frá ári. Hún er 43% af vergri landsframleiðslu núna og var á sama tíma í fyrra 35%, árið þar á undan 23%, ef ég man rétt. Það er ekki heillavænlegt. Við sjáum þess enn fremur stað í fylgiritinu með fjárlögunum, langtímaáætluninni, að vaxtagreiðslur aukast ár frá ári. Það er áhyggjuefni sem ég tel að fjárlaganefnd þurfi að gaumgæfa vel og fara mjög ítarlega yfir.

Þar sem ég kemst ekki yfir öll þau atriði sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í tengslum við fjárlögin læt ég það sem eftir stendur bíða seinni ræðu minnar og lýk máli mínu.