140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður höfum margoft tekið þátt í umræðum um þessa hluti og við erum jafnósammála eftir sem áður. Alþingi gefur ekki frá sér fjárlagavaldið með þessum hætti heldur felur það framkvæmdarvaldinu úthlutun styrkja innan ákveðinna skilgreindra ramma eftir fyrir fram gefnum reglum og forsendum fjárlaganefndar.

Það er líka algjörlega í andstöðu við góða siði að Alþingi veiti einstaka styrki og eigi síðan að hafa eftirlit með hvernig þeim úthlutunum er háttað og hvernig þeim fjármunum er ráðstafað. Við erum að efla lögbundna sjóði með þessum breytingum og auka gegnsæi og faglega úthlutun fjármuna ríkissjóðs til mikilvægrar starfsemi ýmissa samtaka og félaga.