140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera að löngu umtalsefni þá fullyrðingu hv. þingmanns að þeir sem geta lofað meira en 3% hagvexti verði kallaðir á vettvang hinna alþjóðlegu efnahagsmála, en hefði gaman af að segja honum að ég tók að mér ráðgjöf fyrir Alþjóðabankann í sumar.

Það sem ég ætlaði aftur á móti að tala um er skattur á fjármálafyrirtæki og ástæðuna fyrir því af hverju fjármálafyrirtæki bera ekki virðisaukaskatt. Virðisaukaskatt ber neytandinn alltaf á endanum og það var talið mjög íþyngjandi fyrir þá sem nota sér þjónustu fjármálafyrirtækja að setja virðisaukaskatt á fjármálaþjónustu. Ef fjármálaþjónusta bæri virðisaukaskatt væri bæði inn- og útskattur þannig að það kæmi ekki beint niður á þeim, nema í gegnum minni eftirspurn eftir þjónustunni því verðið mundi hækka. Þau rök að fjármálaþjónusta gæti þess vegna borið virðisaukaskatt ef þau vilja ekki bera þennan nýja skatt, á því ekki alveg við í þessu tilfelli hv. þingmanns. Þannig að dæmið sem hv. þingmaður tekur er ekki gott.

Ég vildi, af því ég gleymdi að byrja andsvar mitt á því, þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu um leið og ég varpa fram þeirri spurningu hvort hv. þingmaður hafi hugleitt að þar sem er innskattur er alltaf útskattur.