140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Auðvitað er margt jákvætt í íslensku samfélagi og margir styrkleikar sem við getum byggt á. Við njótum þess líka nú að efnahagskerfi okkar er tekið að vaxa. Sem betur fer eru deilurnar hér í þinginu komnar niður í það að deila um hvort 1,6% vöxtur landsframleiðslu, 2,8% eða 3,5% er fullnægjandi. Það er vel. Ég vona sannarlega eins og hv. þingmaður að hagvöxtur verði meiri en spáð er. Ég vona að ýmislegt sem við eigum til að byggja á muni nýtast okkur í því, en ég vara við því að menn tali um það sem sjálfsagðan hlut eða gefinn hlut. Við þær aðstæður sem eru á heimsmörkuðunum í dag og í alþjóðlega fjármálakerfinu er það einfaldlega mjög varhugavert. Ég held að við gerð kjarasamninganna hafi verið mjög varhugavert að gefa sér þann mikla vöxt sem menn gáfu sér þar. Þar hafi menn sumpart verið að gera eins og Münchhausen forðum, að reyna að hífa sig upp úr dýinu á hárinu, vegna þess að þó að við kunnum að ná svo miklum hagvexti endrum og sinnum, er það ekki eitthvað sem við getum ávísað á inn í framtíðina.

Ég vara líka við því að við fjöllum um Ísland sem einstakt í sinni röð hvað ýmsa hluti varðar eins og aðgang að auðlindum. Ég bendi á að vestan við okkur er Grænland ríkt að auðlindum í jörðu og hafi, og það má nefna Noreg og Rússland. Heimurinn er fullur af löndum sem eiga mikið af auðlindum en hafa þó ekki náð að breyta þeim í efnahagslega farsæld til handa öllum.