140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þessar spurningar. Umræddur skattur á lífeyrissjóðina mun þýða að þeir munu borga á milli 200 og 300 milljónir í kostnað á ári og það er lífeyrir fyrir kannski 70–80 manns á ári, þannig að allt telur þetta — milljón hér og milljón þar, fljótlega erum við farin að tala um mikla peninga.

Hvað varðar veiðigjaldið held ég að í sjálfu sér sé ekki óeðlilegt að sjávarútvegurinn greiði veiðigjald eða auðlindagjald ef hann getur búið við það öryggi sem hann þarf að búa við. Eins og látið hefur verið hér á Alþingi og í ríkisstjórn og annað slíkt, og eins og einstakir þingmenn láta með þetta, tel ég að fullkomin óvissa sé um hvernig muni fara í sjávarútvegsmálunum og hvernig fiskveiðistjórnarkerfi við munum búa við. Allt hnígur í þá átt að hér sé verið að plokka í fiskveiðistjórnarkerfið á þann veg að auðlindaarðurinn, sem á að endurspeglast í auðlindagjaldinu, minnki. Ef ýtrustu sjónarmið, eins og til dæmis kom fram í stóra fiskveiðifrumvarpinu, verða að veruleika, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af auðlindaarði. Þá þurfum við ekki að deila um auðlindaskatt (Forseti hringir.) eða veiðigjald á þessa mikilvægu atvinnugrein.