140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar niðurskurðinn. Það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra nefnir að ég hef lýst því hér yfir að ég muni styðja það að skorið verði niður. Ég mun sennilega, eins og ég benti á, frú forseti, vilja ganga lengra á ýmsum sviðum en ríkisstjórnin. Það er ekki þar með sagt að ég beygi mig undir þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin leggur upp með. Það kann að vera að þegar fram vindur þessu máli muni leiðir skilja á milli mín og hæstv. utanríkisráðherra um hvernig best verði að því staðið, það kann að vera, en það liggur alveg fyrir að það mun þurfa að skera niður útgjöld ríkisins. Það er óumflýjanlegt og það verður erfitt fyrir alla að standa að því. Það verður erfitt fyrir þá stjórnarandstöðu sem leggur slíkt til og það verður líka erfitt fyrir stjórnarliðana, en það er óumflýjanlegt. Svo getur menn greint á um aðferðir.

Hvað varðar aðkomu eða aðgengi að erlendu lánsfé verð ég að hryggja hæstv. utanríkisráðherra með því að ég er ekki alveg jafnviss og hann er að þetta sé allt öðru að kenna en hæstv. ríkisstjórn. Ég held að það hafi haft nokkur áhrif, frú forseti, af því að við erum að ræða orkumál, þegar hæstv. forsætisráðherra lét þau orð falla að það væri mögulegt að ráðist yrði í þjóðnýtingu á einu fyrirtæki hér vegna aðkomu erlendra aðila að því fyrirtæki. Ég held að það sé einn af þeim þáttum sem ollu því að Ísland lendir á lista yfir lönd eins og Egyptaland og Líbíu, Rússland og fleiri ríki hvað varðar pólitískan stöðugleika eða áhættumat á pólitískum stöðugleika. Hitt er líka það þegar hæstv. fjármálaráðherra var spurður að því fyrir nokkru hvort fram undan væru skattahækkanir að þá lét hann þau orð falla, með leyfi frú forseta: „You ain't seen nothing yet.“ (Fjmrh.: Það er rangt.) Það er rangt, segir hæstv. fjármálaráðherra. (Fjmrh.: … breytingarnar.) Og hæstv. fjármálaráðherra segir: Þið hafið ekki séð allar breytingarnar. Gildir einu, frú forseti, gildir einu, einmitt það að lýsa því yfir að fram undan séu stórfelldar breytingar, og það liggur í orðanna hljóðan að það eigi eftir að fara í skattahækkanir og líka umtalsverðar breytingar, gerir það að verkum að erlendir fjárfestar hafa áhyggjur af stöðu mála, hafa áhyggjur af yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra, hafa áhyggjur af yfirlýsingum hæstv. fjármálaráðherra og það býr til pólitískan óstöðugleika. (Forseti hringir.)