140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þingmann á það í sambandi við skattkerfið að við höfum fengið tvær sérfræðiheimsóknir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að skoða mismunandi þætti og reyndar skattkerfi okkar í heild. Þær sérfræðinefndir hafa gefið út ágæta skýrslu að lokinni hvorri heimsókn um sig. Í þessum úttektum og skýrslum fær íslenska skattkerfið alveg ágæta einkunn. Það er talið í öllum aðalatriðum skilvirkt og þjóna tilgangi sínum vel, enda hafa engar grundvallarbreytingar verið gerðar á því í þeim skilningi að við erum hér með tekjuskatt, virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt á tilteknum grunni o.s.frv.

Það var hins vegar alveg ljóst öllum hugsandi mönnum að skattkerfið væri í engu ástandi til að takast á við þær aðstæður sem komu upp í samfélaginu eftir hrunið, eins og það var úr garði gert þá. Það var óumflýjanlegt að gera á þær breytingar, bara hreint af praktískum ástæðum, til að stöðva tekjufall ríkisins en það er líka mikilvægt að okkar mati sem nú förum fyrir meiri hluta á Alþingi að gera á því breytingar til að ná fram markmiðum um bæði tekjujöfnun og umhverfisvernd.

Varðandi Kárahnjúkavirkjun og sölu á virkjunum og tekjustreymi þeirra í 40 ár, eða hvernig sem það er hugsað hjá hv. þingmanni, þá hef ég svo sem heyrt þessar hugmyndir áður en ég hef aldrei fundið neina fjárfesta sem væru í slíku í neinu góðgerðarskyni og ég held að við séum sem betur fer ekki þannig stödd að við þurfum að fara að grípa til slíkra ráða. Það koma þá líka upp ýmsar spurningar um það af hvers konar ráðdeildarsemi maður meðhöndlar það ef maður fær slík verðmæti á einu bretti í hendur sem annars kæmu inn sem jafnar tekjur á 40 árum eða arður o.s.frv. Það gafst ekki vel hjá Grikkjum, vinum okkar, að selja lendingargjöldin á Aþenuflugvelli tíu ár fram í tímann og eiga þá eftir að reka hann.

ESB-umsóknin hefur enn sem komið er ekki kostað stórar fjárhæðir sem telja mikið í þessu samhengi og mun væntanlega ekki gera. Einhver botn fæst í það mál fyrr eða síðar með einhverjum hætti og ýmis kostnaður sem núna er að falla til verður reyndar borgaður í gegnum umsóknarferlið sjálft eins og þýðingar og annað slíkt.