140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

orkusala og atvinnusköpun.

[15:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra til að spara orð sín um hverjir fylgjast með og hverjir ekki því hún svaraði spurningu minni eins og um Landsvirkjun væri að ræða. Ég hafði áhyggjur af Orkuveitu Reykjavíkur, hún hélt áfram að fjárfesta eftir hrunið árið 2008 og er nú reiðubúin með þá orku sem kveðið var á um í stöðugleikasáttmálunum.

Þetta er alveg dæmalaust hvernig hæstv. forsætisráðherra getur sífellt verið utan við sig, ég hélt á tímabili að ég væri jafnvel komin aftur í Kastljóssþáttinn þar sem henni tókst að misskilja nánast hverja einustu spurningu.

Ég ætla að koma í seinni fyrirspurn með mjög einfalda fyrirspurn fyrir hæstv. forsætisráðherra. Úr því að staðan er svona suður með sjó að Verne Holdings hefur keypt orkuna sem HS Orka ætlaði að skaffa í Helguvíkurverkefni, telur hæstv. forsætisráðherra þá ekki miklar líkur á því að Norðurál fari með þá orku sem nú þegar hefur verið handsöluð frá Orkuveitu Reykjavíkur, upp á Grundartanga og noti (Forseti hringir.) fjárfestingu sína þar og orkuna sem þeir hafa þegar keypt?