140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum um þingsályktunartillögu sem felur í sér að Alþingi samþykki staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, því það tel ég okkur gera með því að samþykkja að frumvarp sem heimili að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði lagt fram. Ályktunin lýsir beinni ósk þingsins um það.

Á síðasta þingi var lögð fram tillaga um sama efni sem fékk mjög harða gagnrýni umsagnaraðila. Þó að þessi tillaga sé heldur mjúklegri er hún engu að síður afdráttarlaus viljayfirlýsing um að heimila staðgöngumæðrun.

Ég er á móti því að tillagan verði samþykkt óbreytt. Í fyrsta lagi er þetta spurning sem varðar grundvallarsiðferðismál og mannréttindi. Í öðru lagi skarast hér mörk tækni og mannhelgi og tækniframfarir snúa á haus þeim grundvallarviðmiðum sem gilt hafa. Þetta á við margar spurningar sem við höfum glímt við um hvernig við sem manneskjur eigum að takast á við þau tækifæri, sem svo má kalla, sem ný tækni hefur fært okkur. Oft hafa verið deildar meiningar um það og oft hafa viðhorf breyst samfara breyttri tækni.

Meiri hluti félags- og tryggingamálanefndar veitti heilbrigðisnefnd ályktun um þá þingsályktunartillögu sem var lögð fram á síðasta þingi og minni hluti heilbrigðisnefndar kom svipuðum sjónarmiðum á framfæri. Ég ætla að lesa hluta af þeim hér, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn beinir því til velferðarráðherra“ — þ.e. minni hluti heilbrigðisnefndar — „að skipa starfshóp sem verði falið að skoða frekar þau álitamál sem bent var á af hálfu vinnuhóps fyrrverandi heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun sem skilaði áfangaskýrslu um siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni. Af umsögnum sem nefndinni hafa borist má ráða að þörf sé frekari íhugunar og umræðu í samfélaginu sem síðan liggi til grundvallar opinberri stefnumótun sem velferðarráðherra ber ábyrgð á.“

Á öðrum stað í álitinu er vísað til þess að mikilvægt sé að huga að löggjöf og reynslu nágrannalandanna hvað varðar málefnið.

Umræða um svo viðamikið mál verður að byggja á rannsóknum þar sem fjölmörgum hliðum staðgöngumæðrunar er velt upp. Þar má nefna spurningar sem varða mannhelgi, yfirráð kvenna yfir líkama sínum, réttindi barna, heilsufarsspurningar og ekki síst mörkin milli velgjörðar og viðskipta með börn. Það er mikilvægt að hafa í huga að þessi mörk eru af mjög mörgum talin óljós.

Staðgöngumæðrun er bönnuð í íslenskum lögum, nánar tiltekið í lögum um tæknifrjóvgun, og staðgöngumæðrun er jafnframt bönnuð með lögum í mörgum nágrannalöndum okkar, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum og að því er ég best veit, eftir mjög lauslega athugun reyndar, er ekki vilji til að rýmka löggjöfina þar en í Noregi veit ég að það er þvert á móti verið að herða hana, þ.e. það er verið að útvíkka bannið þannig að það nái líka til staðgöngumæðrunar í hagnaðarskyni utan Noregs.

Þá vil ég að lokum nefna að Alþingi hefur sett lög sem ganga gegn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem við sviptum börn þeim rétti að þekkja uppruna sinn. Þetta er mjög alvarlegt og er hluti af öllum þessum álitamálum sem við þurfum að ræða í þinginu.

Ég get stutt tillögu um starfshóp sem fjalli um álitamál um staðgöngumæðrun sem skili síðan velferðarráðherra skýrslu sem hann flytji þinginu. En ég vara við því að Alþingi samþykki þessa tillögu óbreytta.