140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu og fagna því að hér hafa fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi tekið þátt í umræðunni. Ég tek undir hvatningu þingmannsins um að við vöndum okkur og tökum þessa umræðu frá öllum hliðum. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Okkur kann að greina á um hvort kominn sé tími til að semja frumvarp, ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa fylgst með málinu og kynnt mér þessi mál um langt skeið. Þar greinir okkur á.

Aðeins út af orðum þingmannsins um vald peninganna, atvinnufrelsið, hvað Verslunarráð og Samtök atvinnulífsins muni segja í framtíðinni, þá vil ég draga úr áhyggjum þingmannsins vegna þess að frekar en að líta á þetta sem viðskiptasamning er sagt, og ég endurtek það sem stendur í greinargerðinni og ég ítrekaði í framsögu minni, með leyfi forseta:

„Flutningsmenn tillögunnar leggjast alfarið gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og telja mikilvægt að gerður sé skýr greinarmunur á hagnaði og velgjörð í þessu samhengi.“

Það er alger grundvallarforsenda þess að við berjumst fyrir þessu máli. Á sama hátt og Verslunarráð og Samtök atvinnulífsins hvetja ekki til þess að ættleiðingar í hagnaðarskyni fari fram eða eggjagjöf í hagnaðarskyni fari fram eða komi með ályktun þess efnis, þá tel ég enga hættu á því að Verslunarráð eða aðrir sem þingmaðurinn hefur áhyggjur af að blandi sér í þetta fari í þessa umræðu. Við erum ekki að samþykkja eða leggja til að staðgöngumæðrun verði leyfð hér á landi á sama hátt og á Indlandi. Við höfum farið mjög vel í gegnum það í þessari umræðu að við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um velgjörð, við erum ekki að tala um þetta á neinn (Forseti hringir.) annan hátt og ekki á meiri viðskiptalegum forsendum en ættleiðingarsamningar og eggjagjöf eru í dag.