140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt málið. Það er ekki ætlunin að fara með þetta beint inn í frumvarpið. Hvert er milliskrefið? Milliskrefið er það að við leggjum til að ráðherra skipi starfshóp sem semji þetta frumvarp. Ég dreg ekkert úr því að starfshópnum er ætlað að gera það í staðinn fyrir að við, 23 þingmenn, legðum fram frumvarp sem heimilaði staðgöngumæðrun og það væri svona, svona og svona. Það væri að ana út í eitthvað. Ég mundi helst vilja gera það af því að ég er svo sannfærð í þessu máli en ég geri það ekki, jafnsannfærð og ég er, vegna þess að ég átta mig á því að þetta þarf þennan tíma. En ég vil ekki búa til enn eina skýrsluna, skipa enn eina nefndina sem ekkert kemur út úr heldur vil ég að þessi starfshópur hafi það markmið að koma hingað eftir vandlega yfirlegu, eftir ítarlega skoðun, eftir að öll álitamálin eru krufin rækilega, með frumvarp sem við getum rætt.

Hv. þingmaður sagði að frumforsenda þess að hann styddi þetta mál væri sú að þetta væri sannanlega velgjörð. Þá segi ég: Velkominn í stuðningsmannahópinn. Þetta er nákvæmlega það sem vakir fyrir okkur öllum. Það er frumforsenda mín sem 1. flutningsmanns þessarar tillögu að þetta verði einungis gert af velgjörð og með ströngum skilyrðum og að leitað verði allra leiða til að koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar geti misnotað þetta á einhvern hátt. Og það að það séu heilu héruðin á Indlandi þar sem vantar í fólk nýrun þýðir ekki að þannig sér ástatt um heil héruð á Íslandi, jafnvel þó að hér sé heimilt að gefa úr sér nýru og allir geti gert það ef þeir svo kjósa og finna hjá sér þörf til að gera það. (Forseti hringir.) Það er akkúrat þessi munur sem við erum að tala um. Munurinn á Indlandi og Íslandi er ekki bara sá að Indland er langt í burtu og stærðarmunur, hér eru allt öðruvísi (Forseti hringir.) siðferðisgildi og munur sem við munum að sjálfsögðu láta (Forseti hringir.) sjá stað í þessu máli.