140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt að árétta það að ég er ekki stuðningsmaður þessarar þingsályktunartillögu. Ég gæti hugsanlega verið stuðningsmaður staðgöngumæðrunar ef hægt væri að tryggja það með einhverjum hætti að hún yrði eingöngu og aldrei annað en í velgjörðarskyni. Það er það sem ég er að velta vöngum yfir og ég gerði í ræðu minni. Mér finnst þessi þingsályktunartillaga vera of brött. Það eru tilmæli frá Alþingi að starfshópur skrifi frumvarp á vegum ráðherra og mér finnst það vera ótímabært á þessu stigi.

Það hefur komið fram að skýrsla sem skrifuð var um þetta mál fyrir nokkrum árum er ófullkomin og þarf að endurskoða margt í henni og jafnvel skrifa hana alveg að nýju. Það hafa komið fram athugasemdir gegn staðgöngumæðrun frá mjög mikilvægum fagaðilum sem tengjast málinu sem þarf að skoða betur.

Hvað varðar muninn á indverskum og íslenskum nýrum í fólki þá er munurinn á þeim eingöngu verð, ekkert annað.