140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að kveðja mér hljóðs undir þessum lið til að ræða málefni háskólanna í landinu. Við státum okkur gjarnan af því að vera vel menntuð þjóð og það var sannarlega þannig á árunum fyrir hrun að við lögðum tiltölulega háar fjárhæðir til menntamála í samanburði við OECD-ríkin. En því miður má spyrja sig hvort það hafi skilað viðunandi árangri því að staðreyndin er sú að almennt menntunarstig þjóðarinnar er það lægsta sem þekkist innan OECD.

Þá vekur það athygli þegar maður ber stöðu okkar saman við stöðu nágrannalandanna að hér hefur tíðkast allt önnur forgangsröðun í fjárveitingum innan málaflokksins en í samanburðarríkjunum. Þar hallar verulega á háskólana og framhaldsskólana. Það er sláandi staðreynd að Ísland ver minnstum fjármunum allra 30 OECD-ríkjanna til háskólamála og innan OECD er algengt að helmingi meiri fjármunum sé varið í háskólamenntun en grunnskólamenntun en á Íslandi er því þveröfugt farið. Hér er mestu fjármagni varið í grunnskólana en minnstu í framhaldsskóla og háskóla.

Tæpir 15 milljarðar á fjárlögum næsta árs renna til sjö háskóla í landinu, tveir þriðju til Háskóla Íslands og þriðjungur til sex annarra háskóla. Þeir gegna allir mikilvægu hlutverki hver á sínu sviði. En við verðum samt að horfast í augu við að við höfum ekki efni á því til framtíðar að reka sjö háskóla í 300 þúsund manna samfélagi.

Nú er lögfræði er kennd í fjórum háskólum á Íslandi, viðskiptafræði í fjórum háskólum, sálarfræði í þremur, og svo mætti áfram telja. Á sama tíma kennir Háskóli Íslands tæplega þúsund nemendum án þess að fá krónu greitt fyrir þann stóra hóp. Við þurfum að skoða sameiningar háskóla með opnum huga. Ég tel nærtækast að skoða þar sameiningu Háskólans á Akureyri og Hólaskóla og við eigum að hraða mjög þeirri skoðun en við þurfum líka að meta aðra kosti og hagkvæmni þeirra. Við getum ekki haldið áfram að smyrja þunnt og veikja grunnstoðir menntakerfisins í landinu.