140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

fjárhagsstaða heimilanna -- málefni háskólanna -- ráðning forstjóra Bankasýslunnar o.fl.

[10:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. Þórs Saaris um fyrsta fund atvinnuveganefndar áðan og gagnrýni hans, sem kom reyndar fram á fundinum og ég hélt að hefði komist þar til skila en hann kýs að koma því líka til skila í ræðustól Alþingis, tel ég mér skylt að svara því.

Ég vil segja það, virðulegi forseti, að það má kannski skrifast á mig að ég hafi ekki beitt mér fyrir að fundurinn mundi hefjast hálftíma seinna vegna þessara funda og það tilkynnt í gær. Ég lít ekki á það þannig að einhverjir þingmenn séu að sinna einhverjum áhugamálum þegar menn fara á fund um íslenskan sjávarútveg hjá greiningardeild Arion banka eða hjá Landssambandi smábátaeigenda eða einhverjum öðrum. Það er liður í upplýsingaöflun þingmanna um mál. Þarna var mjög góður fundur haldinn þar sem Kristrún M. Frostadóttir hagfræðingur setti fram hagfræðiskýrslu sem tekin hefur verið saman og er ágætisinnlegg í umræðuna. Þess vegna vísa ég því til föðurhúsanna þegar hv. þingmaður talar um að menn séu að sinna einhverjum áhugamálum. Það er verkefni okkar að kynna okkur hlutina frá öllum hliðum.

Mér finnst miður að hv. þingmaður skuli hefja starf sitt í atvinnuveganefnd með þessu atriði. Hann getur að sjálfsögðu gagnrýnt það hvað við seinkuðum fundinum um hálftíma seint, en það var m.a. gert vegna þess að við vissum að þarna voru margir á fundi, m.a. fyrsti varaformaður atvinnuveganefndar Lilja Rafney Magnúsdóttir sem flutti þarna erindi. Það var mjög gott að hlusta á það. Hún gat hins vegar ekki komið á fundinn. Stundum, virðulegi forseti, geta hlutirnir skarast og þá verða þingmenn að velja og hafna hvort þeir fara á fund úti í bæ eða taka nefndarfundina.

Ég ætla svo aðeins að nefna, virðulegi forseti, að með nýjum þingsköpunum eigum við eftir að sjá það að varamennskan, sérstaklega hjá stjórnarþingmönnum, mun ekki alltaf ganga upp vegna þess að varamenn (Forseti hringir.) eru á öðrum fundum á sama tíma. Ég vil því hvetja hv. þingmann til að líta á þetta aðeins jákvæðari augum, (Forseti hringir.) með tilliti til þess að við þurfum að sækja svona fundi úti í bæ og höfum líka gott af því.