140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag, þakka sérstaklega hæstv. innanríkisráðherra fyrir ágæt svör þó að ég kunni að sjá tilefni til að ræða við hann nánar um fjárveitingar til löggæslumála á öðrum vettvangi þegar lengra líður. Ég tel ástæðu til að endurskoða þær fjárveitingar sem við höfum séð í fjárlagafrumvarpinu til löggæslumála.

Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti í síðari ræðu sinni komið inn á skipulagsmálin sem hann vék ekki mikið að í upphafsræðunni. Varðandi annað sem komið hefur fram í þessari umræðu get ég tekið undir margt þar. Varðandi ræðu hv. síðasta ræðumanns, Ólínu Þorvarðardóttur, velti ég fyrir mér hvort það sé sanngjarnt að stilla málum upp með þeim hætti að það sé fyrst og fremst innanhússmál lögreglunnar, stofnana annars vegar og starfsmanna hins vegar, að skoða framgangskerfi sem auðvitað hefur áhrif á launamál. Við getum velt fyrir okkur hvort það sem hefur gerst í þeim efnum sé ekki einmitt afleiðing af þeirri stefnu sem komið hefur út úr kjarasamningunum, þ.e. þar sem áherslan hefur verið á tiltölulega lág grunnlaun og menn hafa þá tilhneigingu til að bæta við með breyttum stöðuheitum eða stöðugildum.

Varðandi orð hv. þm. Skúla Helgasonar, sem vék að ríkislögreglustjóraembættinu sérstaklega, 1.200 millj. kr. sem á að verja til þess embættis, vildi ég bara geta þess, af því að ég hef átt þessa umræðu áður við þingmenn Samfylkingarinnar, (Forseti hringir.) að við verðum að horfa á þau verkefni sem þar eru. (Forseti hringir.) Þau þarf að vinna áfram, almannavarnadeildin, sérsveit, innkaup, (Forseti hringir.) fjölmörg verkefni sem þarf að sinna þar og kosta mikla peninga. Þetta er ekki bara skrifstofuhald, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)