140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin. Ég vissi vel að 23. ágúst hefði verið tekin ákvörðun um að byggja 56 fanga fangelsi uppi á Hólmsheiði. En nú er kominn 6. október og ekkert hefur gerst síðan ákvörðunin var tekin enda var bullandi ágreiningur um hana í ríkisstjórn, hvort það ætti að kaupa eða leigja sem þýðir spurningu um hvort þetta eigi að vera opinber eða einkaframkvæmd. Þar stendur hnífurinn í kúnni, hæstv. innanríkisráðherra, fangelsismálin eru í gíslingu þessarar ríkisstjórnar vegna ágreinings um hvaðan fjármagnið að nýju fangelsi á að koma. Það er einstakt mál og hér hefur lítið gerst síðan.

Við vitum að það er komin heimild til að byggja hér hátæknisjúkrahús. Það gerist ekki neitt vegna þess að það vantar kannski lækna þegar til kemur, þegar ákvörðun verður tekin um að hrinda því af stað.

Hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Það vantar dagsetningar inn í þennan málaflokk, hvenær Hegningarhúsinu verður lokað vegna undanþágna og hvenær nýtt fangelsi rís. Á meðan fyrnast brot og á meðan tapar ríkið háum upphæðum.

Mig langar því til að spyrja hæstv. innanríkisráðherra á ný vegna þess að ekki bárust svör við þeim spurningum:

1. Hvenær verður Hegningarhúsinu lokað og hvenær verður það selt?

2. Hvenær verða framkvæmdir hafnar við nýtt fangelsi á Hólmsheiði? Sér ráðherrann ekki fyrir sér að jafnframt verði byggt upp á Litla-Hrauni samhliða byggingu fangelsis á Hólmsheiði vegna gríðarlegs skorts á úrræðum?