140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur þess réttilega að ég hefði ekki fært mörg rök fyrir málstað Ísraela en staðreyndin er einfaldlega sú að ég er að mæla fyrir viðurkenningu Palestínu. Ef hv. þingmaður þarf upplýsingar eða rök ætti hann bara að skoða samþykktir Sameinuðu þjóðanna um brot Ísraelsmanna.

Hv. þingmaður spyr: Hvað segja Ísraelsmenn sjálfir? Ja, kollegi minn Avigdor Lieberman flokksformaður, sem er að berjast við Netanyahu um forræði og forustu fyrir hægri vængnum sem er giska stór í Ísrael, hefur sagt að hann telji að það sé nauðsynlegt fyrir öryggishagsmuni í Ísrael að hafa ísraelska hermenn að Jórdan. Það eru ekki miklar friðarhorfur í slíku tali, menn syngja ekki eins og friðardúfur.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru ríki á svæðinu sem beinlínis vilja steypa Ísraelsríki. Það eru sömuleiðis samtök utan Palestínu sem vinna að hinu sama. Það sem skiptir máli og hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir er að breytt afstaða hefur komið fram undanfarinn áratug hjá forustu Palestínumanna, þ.e. þeir vilja viðurkenna tilvist Ísraelsríkis, þeir vilja friðsamlega sambúð. Það er breytingin. Það liggur líka fyrir yfirlýsing frá Arababandalaginu — sem hv. þingmaður dró í efa að væri í miklu gildi þegar við ræddum saman á utanríkismálanefndarfundi síðast — um það að ef Ísraelsmenn draga her sinn inn fyrir landamærin fyrir 1967 bjóða þeir upp á stjórnmálasamband og frið.

Rannsóknarspurningin sem hv. þingmaður sagði að menn þyrftu að skoða var þessi: Getur samþykkt þessarar tillögu ýtt undir frið? Ég held að það sé röng spurning. Ég tel að við höfum ákveðnar móralskar skyldur og þá á spurningin að vera þessi: Getur samþykkt þessarar tillögu dregið úr friðarlíkum? Ég held að svo sé ekki.