140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er merkilegt plagg sem við höfum hér til umræðu. Eftir margar tilraunir stjórnarskrárnefnda liggur nú fyrir tillaga að nýrri stjórnarskrá. Tillagan að stjórnarskránni er í níu köflum, afrakstur mikillar vinnu stjórnlaganefndar sem safnaði gögnum, hélt þjóðfund og vann úr þeim skoðunum sem þar komu fram, og loks stjórnlagaráðsins. Það er ekki einungis afrakstur vinnu þeirra í stjórnlagaráðinu sem vakið hefur athygli, heldur einnig vinnubrögðin sem einkenndust af því að ná sameiginlegri niðurstöðu í stað þeirra átaka sem gjarnan eru stunduð í þessum sal. Þykir mörgum sem við eigum að taka stjórnlagaráðið okkur til fyrirmyndar í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði í tillögum stjórnlagaráðsins. Ég mun ekki gera þeim ítarleg skil, aðeins stikla á nokkrum atriðum sem hafa vakið athygli mína á ferð minni í gegnum þetta plagg. Alveg eins og hv. þm. Birgir Ármannsson lýsti áðan er mikil vinna fyrir höndum í nefnd þeirri sem við sitjum bæði í, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Í I. kafla tillagnanna eru undirstöðurnar. Þar segir að Ísland sé lýðveldi með þingræðisstjórn. Þar er sagt fyrir um þrígreiningu ríkisvaldsins og kveðið á um íslenskt yfirráðasvæði en samkvæmt því má ekki skipta landinu upp eins og gerist í sambandsríkjum. Það er kveðið á um hverjir hafi ríkisborgararétt og svo er nýtt ákvæði um hverjar séu skyldur borgaranna. Það segir í skýringum stjórnlagaráðsins, með leyfi forseta:

„Í tillögu stjórnlagaráðs er mikil áhersla á réttindi borgaranna og þeim veitt aukin völd, m.a. með grein um þjóðarfrumkvæði og rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Í starfi ráðsins var lögð mikil áhersla á að tryggt væri að völd og ábyrgð færu saman. Greinin þykir því nauðsynleg til að tryggja að allir þeir sem stjórnarskrá þessi tekur til skapi þeim ekki einungis rétt heldur einnig skyldur til að rækja réttindi sín og virða bæði lög og réttindi annarra.“

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta eiga mjög vel við og við eigum að huga að þessum atriðum í öllum athöfnum okkar, ekki bara í stjórnarskrá. Réttindum fylgja skyldur.

Yfirskrift II. kafla er „Mannréttindi og náttúra“. Þar eru troðnar nýjar slóðir. Í skýringum með tillögunum er vísað til þess að í fræðunum er gjarnan talað um þrjár kynslóðir mannréttinda. Í fyrstu kynslóð eru borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Til annarrar kynslóðar teljast efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Réttindi sem teljast til þriðju kynslóðar eru öðruvísi en þau sem heyra til fyrstu og annarrar kynslóðar að því leyti að þau leggja skyldur á herðar einstaklinga en ekki bara ríkisvaldsins. Dæmi um réttindi af þessu tagi er réttur á þróun, friði, heilbrigðu umhverfi og jafnrétti kynslóðanna. Það er því óhætt að segja að tillögurnar um mannréttindi hafi verið færðar til nútímans.

Í þessum kafla, nánar tiltekið í 34. gr., er kveðið á um að auðlindir sem ekki eru í einkaeign séu ævarandi eign þjóðarinnar. Ég tel að flestir séu sammála því að ákvæði af þessu tagi eigi að vera í stjórnarskrá. Það var ekki svo fyrir nokkrum árum. Því er líklegt að ágreiningsatriðin um hvað eigi að vera í stjórnarskrá og hvað ekki hafi breyst á nokkrum árum.

III. kaflinn er um Alþingi. Þar er hnykkt á þingræðisreglunni. Ítarleg umræða fór fram í ráðinu um hvort afnema ætti þingræðisfyrirkomulagið og taka upp forsetaræði eða forsetaþingræði eins og tíðkast til dæmis í Frakklandi. Niðurstaða stjórnlagaráðs var að festa þingræðisregluna í sessi. Sjálf hef ég verið höll undir að hyggilegt gæti verið að taka hér upp forsetaþingræði. Í mínum huga skiptir máli að þessi hugmynd hefur verið ítarlega rædd í ráðinu sem hefur komist að annarri niðurstöðu og þar með sé málið útrætt.

Tillögur eru settar fram í þessum kafla sem ætlað er að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Kveðið er á um eftirlits- og fjárstjórnarvald Alþingis og einnig eru tillögur um að styrkja minni hluta þingsins. Í þessum kafla er einnig fjallað um kosningar til Alþingis. Í skýringum stjórnlagaráðsins segir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi meginmarkmið voru einkum lögð til grundvallar við endurskoðun kosningakerfisins í starfi stjórnlagaráðs:

Að efla lýðræði með því að auka bein áhrif kjósenda á val alþingismanna.

Að jafna vægi atkvæða.

Að um leið sé þess gætt að raddir sem flestra landsvæða heyrist á Alþingi.

Að stuðla að því að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast á þingi.“

Virðulegi forseti. Ég trúi því að ég móðgi ekki neinn þótt ég segi að kosningafyrirkomulagið sem lagt er til virðist nokkuð flókið. Það sem mestu máli skiptir er þó að það sé ekki flókið fyrir kjósandann að kjósa. Vel má vera að svo sé ekki í þessu fyrirkomulagi. Ef til vill er samt hægt að ná markmiðum stjórnlagaráðsins fram á einfaldari máta. Mér finnst ekki ótrúlegt að einhverjum finnist rétt að gera það. Það sem þá skiptir meginmáli er að markmið stjórnlagaráðsins verði lögð til grundvallar ef til einhverrar einföldunar kemur.

Þá er í þessum kafla einnig fjallað um lýðræðislega þátttöku almennings, þ.e. bæði þingmál að frumkvæði kjósenda og þjóðaratkvæðagreiðslu. Ýmis önnur nýmæli eru í þessum kafla sem við höfum öll ábyggilega miklar skoðanir á.

IV. kaflinn fjallar um embætti forseta Íslands. Ég ætla ekki að fara inn í þær deilur, ef svo má segja, eða þau skrif þar sem valdsvið forseta Íslands hefur verið túlkað undanfarið. Það sem vakti athygli mína í þessu er hvernig forseti skuli kosinn. Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, og nær sá kjöri sem best uppfyllir forgangsröðun kjósenda. Með þessari aðferð er tryggt að sá sem er kjörinn forseti, ef fleiri en einn eru í kjöri, lýtur meirihlutavilja. Eins og kunnugt er hefur sú aðferð sem hér er notuð leitt til þess að forseti hefur verið kjörinn án þess að hafa meiri hluta atkvæða. Slíkt mun vera einstætt í lýðræðisríkjum með þjóðkjörnum forseta. Í þessum kafla er einnig ákvæði um að forsetinn skuli ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

V. kaflinn, virðulegur forseti, er um ráðherra og ríkisstjórn. Þar er enn að finna nokkur nýmæli sem fólki sýnist ábyggilega hverju sitt um. Má þar nefna ákvæði um að ríkisstjórn taki sameiginlegar ákvarðanir um mikilvæg og stefnumarkandi málefni. Sumir, þar á meðal ég, hafa efasemdir um að það henti okkur sem ávallt búum við samsteypustjórnir að ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald. Að því frágengnu er ákvæðið ekki alveg skýrt og mér finnst að ákvæði stjórnarskrárinnar eigi að vera skýr og auðskiljanleg sem flestum við einfaldan lestur.

VI. kaflinn fjallar um dómstóla. Þar er ekki mikið um nýmæli, þó er mælt fyrir um að tilteknar óskrifaðar stjórnskipunarreglur verði festar í sessi, svo sem að dómstólar meti stjórnskipulegt gildi laga.

VII. kaflinn er um sveitarfélög og er staða sveitarfélaganna styrkt.

Sá VIII. er um utanríkismál. Þar er nýlunda um að ef Alþingi samþykkir fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skuli ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði og að slík þjóðaratkvæðagreiðsla skuli vera bindandi. Mér finnst þetta merkilegt og þarft ákvæði í stjórnarskránni.

Í IX. kafla er síðan lokaákvæði um stjórnarskrárbreytingar og um að þær skuli bornar undir þjóðina í framtíðinni, um gildistöku og síðan er eitt ákvæði til bráðabirgða.

Virðulegi forseti. Stjórnarskránni verður ekki breytt nema fyrir tilstilli þingsins. Hér liggur nú fyrir tillaga frá stjórnlagaráði sem við getum ekki ýtt frá okkur til einhvers annars. Við verðum hvort heldur einhverjum líkar betur eða verr að fjalla um tillögurnar. Það verður verkefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera það. Í þeirri nefnd eigum við eins fljótt og mögulegt er að komast að samkomulagi um málsmeðferðina. Við eigum að setja okkur tímaramma um einstaka þætti vinnunnar. Hún má ekki dragast á langinn og heldur ekki vera hroðvirknisleg. Þar þarf eins og í öðru að finna hinn gullna meðalveg.

Við eigum að fá okkur til aðstoðar fólk sem getur farið yfir tillögurnar og bent okkur á ef eitthvað er þar sem rekur sig á annars horn. Við eigum að lýsa eftir skoðunum allra þeirra sem áhuga hafa á málinu, kalla til fundar og samráðs við okkur áhugamenn um stjórnarskrána og sérfræðinga í þeim þáttum sem hún tekur til, hvort heldur það eru mannréttindi eða kosningalöggjöf. Auðvitað eigum við að vera í náinni samvinnu við fólk sem unnið hefur að málinu til þessa.

Við eigum að finna út hvernig við getum haldið opna fundi. Ég tel að það form sem tíðkast nú á opnum fundum þingnefnda henti ekki til þessarar vinnu en þá þarf að leita annarra leiða. Við þurfum að sjá til þess að tillögurnar verði kynntar í borg og bæ og um allt land. Vonandi þurfum við ekki að stjórna því nema að litlu leyti. Ég sá til dæmis mér til ánægju að Borgarbókasafnið efnir nú til nokkurra kynningarfunda um málefnið. Ef við erum heppin fara önnur bókasöfn í landinu að því fordæmi. Líklegast verðum við að útvega einhverja peninga til að hjálpa til við kynningarstarfið. Ríkisútvarpið hefur að mínu mati skyldur í þessu efni og vonandi finnst öðrum fjölmiðlum einnig ástæða til að fjalla um þetta veigamikla mál.

Margir eru því fylgjandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar. Við þurfum að finna út hvernig því verður best fyrir komið. Er í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu hægt að bjóða upp á einhverja valkosti? Ég held að það geti verið erfiðara en sýnist í fyrstu vegna þess að tillögurnar eru útpældar, að því er mér virðist, og hanga því nokkuð saman og það gæti einfaldlega eyðilagt allt verkið ef það verður sett upp sem einhvers konar matseðill sem hægt er að velja af. Kannski vill stjórnlagaráðið eða einhverjir fulltrúar þess taka afstöðu til hugmynda sem fram koma við umfjöllun nefndarinnar og hjálpa okkur í þessum efnum. Allt þetta þurfum við að gaumgæfa og ef allir leggjast á eitt í hugarleikfimi efast ég ekki um að við finnum einhverja snjalla lausn í þessu máli.