140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrefa um formið frekar en efnið? Ég ætla ekki að standa hér og þrefa við hv. þingmann um formið, ég mun örugglega þrefa við hv. þingmann um efnið, en engu að síður tel ég rétt að halda til haga og ítreka þær skoðanir sem ég hef haft á þessu ferli í þessu máli. Ég frábið mér að hv. þingmaður skuli finna að því. Ég hafna því einnig algerlega að hafa talað af einhverri lítilsvirðingu til þeirra sem tóku þátt í þessari kosningu. Ég gerði það alls ekki. Ég skal upplýsa hv. þingmann um að ég fór sjálfur og kaus. Ég hunsaði ekki þessar kosningar. Ég tók þátt af því að mér fannst skylda mín að gera það. Ég get samt sagt við hv. þingmann að einungis tveir af þeim sem ég merkti við komust í þessa úrvalssveit sem var svo valin til að skrifa þetta frumvarp á þinginu, ekki samkvæmt niðurstöðum kosninganna vegna þess að þær voru ógiltar.

Mér finnst nauðsynlegt að koma því til skila að kosningaþátttaka upp á 36% í máli sem var búið að gera mikið úr, auglýsa vel og segja að skipti miklu máli er mjög lítil að mínu viti. Þá er ég ekkert að tala um þá sem kusu, hvorki mig né aðra. Þetta er mjög lítil þátttaka.

Það sem ég er að reyna að koma á framfæri við hv. þingmenn er að breytingar á stjórnarskránni, þessu grundvallarplaggi okkar, verða að mínu viti að hafa sterkan grunn. Það verður að vera trúnaður og traust um þær breytingar. Auðvitað er sagan um breytingar á stjórnarskránni ekkert mjög hliðholl Alþingi eða alþingismönnum, ég játa það fúslega. Það er margt nýtt fólk á þinginu og ég hefði viljað láta á reyna, svo ég segi alveg eins og er, að við hefðum getað náð hér fram ákveðnum breytingum á stjórnarskránni.