140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þannig að við hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nálgumst aðeins í þessari umræðu er það rétt að þær styrkveitingar sem getið er um í skýrslu rannsóknarnefndar vörðuðu fyrst og fremst kosningar sem annars vegar áttu sér stað 2006 og hins vegar 2007. Lögin sem voru samþykkt í desember 2006 tóku ekki gildi fyrr en eftir kosningarnar 2007 en það má deila um hvort með því hafi verið rétt að málum staðið. Ef ég man rétt bjuggu þau sjónarmið að baki að ekki væri rétt að breyta leikreglum í miðri atburðarás í aðdraganda kosninganna 2007, bara þannig að það sé sagt. Það má velta fyrir sér hvort þau hefðu átt að taka gildi þegar í stað en þau tilvik sem skýrsla rannsóknarnefndar fjallar um og listarnir sem hv. þingmaður vísar til eiga sér rót í styrkveitingum sem áttu sér stað áður en (Forseti hringir.) lög um fjármál stjórnmálaflokkanna tóku gildi, forvitnileg engu að síður.