140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:24]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að við séum nú í þeirri stöðu að vera komin með þetta frumvarp og þessar tillögur inn til Alþingis. Ég lít svo á að það sem skipti mestu máli núna sé að koma þessu verkefni sem allra fyrst í hendurnar á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fara að vinna með þetta mál þannig að tíminn nýtist sem best má verða.

Við tókum hérna ágæta umræðu í síðustu viku um þá tillögu sem hv. þm. Þór Saari nefndi áðan um það verklag, það ferli og það skipulag sem þarf að leggja upp með sem í mínum huga er gríðarlega mikilvægt, í raun og veru lykilatriðið áður en lagt er af stað í þessa vinnu, þ.e. að menn nái samstöðu um það hvernig menn ætla að fara yfir þetta verkefni.

Mér finnst að sumu leyti stangast á þær áherslur sem koma fram í máli hv. þingmanns og í tillögunni, að þingið og þingnefndir eigi helst ekki að koma nálægt einu eða neinu í þessu frumvarpi áður en það kemur inn á borð til þjóðarinnar en á sama tíma er vakin athygli á því að hér stangast ýmis atriði á eða þarfnast frekari skýringar og yfirferðar sem væntanlega verður þá að fara fram af hálfu viðkomandi þingnefndar til að við getum lagt málið með þeim hætti sem við teljum skynsamlegast fyrir þjóðaratkvæði. (Gripið fram í.)

Það verður auðvitað að marka þarna skýrar áherslur og línur í því hvernig þingnefndin á að koma að þessu verki, hversu djúpt og ítarlega hún á að fara í þessar tillögur áður en við leitum eftir ráðgefandi viðbrögðum þjóðarinnar í þessu máli. Ég vildi gjarnan fá nánari skýringu á því hvar og hversu víðtækt hv. þingmaður telur eðlilegt að þingnefndin komi að þessari yfirferð á næstu vikum og mánuðum.