140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:26]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta andsvar, það er brýnt að þetta sé skýrt. Það er í mínum huga alveg skýrt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur forræði á málinu þegar það fer úr þingsal til hennar og á að afgreiða það með einhverjum hætti. Þingsályktunartillagan gengur út á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd afgreiði það með sérstaklega tilteknum hætti, þ.e. að í stað þess að setjast niður og senda málið til umsagnar út og suður um allt Ísland og óska eftir áliti allra þeirra sérfræðinga sem eru þegar búnir að gefa álit sitt fyrir stjórnlagaráði leiti hún eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar, þ.e. stjórnlaganefndarinnar, á þessu plaggi og óski eftir tillögum frá þeim sérfræðingum því að þeir eru sérfræðingar í málinu. Þeir hafa þegar unnið mjög gott starf.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti svo velt því fyrir sér þegar hún fær tillögurnar frá stjórnlaganefnd hvort þar sé gengið nægilega langt eða of langt og lagt síðan þær tillögur fyrir stjórnlagaráðið til meðferðar ef einhverjar breytingartillögur eru þannig að í stað þess hefðbundna nefndaferlis sem ég sé fyrir mér að mundi taka sennilega heilt ár miðað við þá umræðu sem ég hef heyrt í þinginu í dag verði stjórnlaganefnd falið að sníða af þá skafanka og agnúa sem eru hugsanlega á þessum tillögum og komi svo þeim upplýsingum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Svo verður framhaldið samkvæmt því.

Ég þekki erfið mál í nefndum á þingi og veit að það eru til aðferðir við að teygja umræðu og afgreiðslu þeirra út í hið óendanlega. Hér er einfaldlega óþarfi að gera slíkt því að það er þegar búið að vinna mjög mikið af þeirri mikilvægu vinnu sem þarf að vinna.