140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:28]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir mikilvægt að þessi sjónarmið séu dregin inn í umræðuna strax á þessum punkti áður en við förum með málið til viðkomandi nefndar. Við megum heldur ekki eyða of löngum tíma í þeirri ágætu nefnd sem er núna að hefja vegferð sína, fær öflugt umboð og tekur hér við mikilvægum ýmsum öðrum verkum. Þó að þetta verði sennilega hennar stærsta viðfangsefni á næstu mánuðum og missirum skiptir gríðarlega miklu máli að við séum samtaka í því, í það minnsta þeir þingmenn á Alþingi sem eru sammála um það að þetta mál eigi að vera forgangsmál, þeir þingmenn sem eru sammála um að við ætlum að koma þessu máli heilu í höfn á þessu kjörtímabili. Við verðum að taka höndum saman og leggja til hliðar ágreining um smáatriði, hefja okkur upp yfir dægurþras og fara í verkefnið þannig að það verði að því sómi eins og hér er lögð rík áhersla á. Við verðum þá að teikna upp þá leið sem við ætlum að fara í þessu efni. Mér þykir vænt um að heyra að það er samhljómur í því að auðvitað verður þingnefndin að fara yfir öll meginatriði þess efnis sem liggur hér fyrir, kalla þá til skýringar og upplýsingar, sníða af agnúa og setja síðan fram þá annaðhvort breyttar útfærslur eða jafnvel valkosti gagnvart þjóðinni ef menn eru með ólíkar meiningar í þeim efnum, en að minnsta kosti þannig að það sem þjóðin fær í hendur til að segja álit sitt á verði sem best úr garði búið.