140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann segist vera þreyttur á því að ég komi endalaust upp í ræðupúlt og spyrji alltaf um það sama. Það sem ég er að spyrja um, herra forseti, er orðið sannfæring. Hvað þýðir orðið sannfæring? Ég er búinn að fletta upp í Google vini mínum, ég er búinn að fletta upp í orðabókum og mínum eigin huga og sannfæring er nokkuð sem ekki breytist, ekki frá degi til dags. Ef hv. þingmaður hefur trú á því að þjóðaratkvæðagreiðslur séu af hinu góða breytist sú sannfæring ekkert við það að þjóðin greiði atkvæði um að það sé ekki gott. Eða hvað? Ef þjóðin greiðir atkvæði um og samþykkir eitthvað sem hv. þingmaður er ekki sannfærður um, getur þá verið að sannfæring hans breytist, dingli bara eftir því hvernig úrslitin úr þjóðaratkvæðagreiðslu verða?

Gott dæmi væri þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu. Segjum að hv. þingmaður væri eindregið á móti því að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, teldi það skaðlegt fyrir land og þjóð. Svo ákveður þjóðin að Ísland skuli ganga inn í Evrópusambandið. Ætlar hv. þingmaður að segja mér þá að sannfæring hans breytist og að allt í einu eigi þjóðin að ganga í Evrópusambandið, eða öfugt? Ég neita að trúa því að sannfæring geti dinglað eftir einhverju öðru en eigin hugarheimi, hún sveiflast ekki eftir því hvað annað fólk gerir eða hugsar. Það stendur í 48. gr. bæði nýju stjórnarskrártillögunnar og stjórnarskrárinnar sjálfrar, það er eins og tilviljun, að þingmenn skuli eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Þessi kosning um stjórnarskrána hefur ekkert gildi. Þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni eftir gömlu stjórnarskránni þegar þetta kemst til tals á Alþingi.