140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[19:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Ég hjó eftir því í ræðu þingmanns og get að nokkru leyti tekið undir það að hann vill hafa stjórnarskrána einfalda og skýra. Hann virtist hafa áhyggjur af því að sú stjórnarskrá sem hér er sé á einhvern hátt bitlaust varnarskjal fyrir borgarana, ef ég hef náð því rétt. Það er auðvitað nokkuð sem við verðum að skoða því að við viljum öll, held ég, tryggja réttindi borgaranna sem best en draga ekki úr þeim.

En mig langar að spyrja þingmanninn hvernig honum hefur fundist núverandi stjórnarskrá hafa reynst sem varnarskjal fyrir borgarana ef við sleppum eignarréttarákvæðunum og tölum um allt hitt.