140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Erlendir kröfuhafar Arion banka hafa eignast þriðjung í stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Er þetta löglegt? Er þetta áhyggjuefni? Ég held að svarið við báðum spurningunum sé já. Þetta er hugsanlega, og að öllum líkindum, löglegt en það er áhyggjuefni.

Erlent eignarhald í íslenskum auðlindafyrirtækjum, fyrirtækjum sem byggja á nýtingu auðlinda, er áhyggjuefni á meðan lagaramminn um sjálfa auðlindanýtinguna er ekki traustari en hann er. Á meðan kvótinn er meðhöndlaður sem eign, keyptur og veðsettur þvert á markmið laga, á meðan hægt er að moka upp fiski í íslenskri lögsögu og flytja hann óunninn úr landi án þess að hann hafi viðkomu á innlendum uppboðsmarkaði, á meðan möguleikar eru skertir fyrir innlenda fiskvinnslu til að bjóða í og kaupa aflann til vinnslu í landi, á meðan ekki er tryggt að nýting auðlindarinnar skili sér í eflingu atvinnu, byggðar og hagvaxtar innan lands er ástæða til að hafa áhyggjur. Á meðan ekki hefur verið skilið á milli eignarhalds fyrirtækjanna og nýtingarréttar auðlindarinnar er ástæða til að hafa áhyggjur.

Þetta dæmi sem kann að vera hið fyrsta af mörgum sýnir okkur svart á hvítu að það má ekki dragast að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, að koma tímabundnum nýtingarsamningum og almennum opnum leigumarkaði upp þar sem forræði yfir aflaheimildunum er á hendi ríkisins en ekki þeirra sem reka sjávarútvegsfyrirtækin.

Fréttir gærdagsins af því að erlendir kröfuhafar hafi eignast þriðjung í HB Granda hljóta að vera þinginu brýn hvatning í þessu efni því að hér er ekki um einhverja (Forseti hringir.) stundarhagsmuni að tefla heldur þjóðarhag til framtíðar.