140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[16:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að hefja þessar umræður hérna. Þær eru svo sannarlega þarfar. Okkur berast daglega fréttir af því að möguleikar bankanna til þess að afskrifa hjá heimilum og fyrirtækjum séu talsvert miklu meiri en verið er að gefa eftir í dag. Hver er ástæða þessa? Ástæðan er sú, eins og fram hefur komið í umræðunni í dag, að það er verið að uppfæra eignasöfnin. Eignasöfnin fóru yfir á lágu verði og það er verið að uppfæra þau, og fyrirtækin og heimilin í landinu fá ekki það sem þeim ber.

Hv. þm. Þráinn Bertelsson sagði að bankar og fjármálastofnanir væru samviskulaus fyrirbæri. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, ég er hjartanlega sammála honum. Ég vil benda á eitt, þegar þessir flutningar fóru fram var mikið tekist á um þetta mál, m.a. í þingflokki Vinstri grænna. Þá var ráðist á hvern þann — hv. þm. Lilja Mósesdóttir vakti oft máls á þessu — sem ræddi þetta á þeim nótum að það ætti að ráðast í almennar leiðréttingar á lánum heimila og fyrirtækja. Það kom frá forustu Vinstri grænna og ekki síst frá þingmönnum Samfylkingarinnar sem létu að því liggja að hver sá sem gagnrýndi stefnu ríkisstjórnarinnar með þessum hætti væri að ráðast á fyrstu hreinu vinstri stjórnina í landinu. Þetta er grafalvarlegt.

Vegna þess að umræðan var keyrð áfram á sínum tíma með þessum hætti trúðu fæstir öðru en að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra væri alvara. Vegna þess hvernig þau höfðu talað um hagsmuni heimilanna og að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna barðist gegn verðtryggingunni á sínum tíma trúði fólk ekki öðru en að þessi ríkisstjórn væri að taka á málum. Hvað er að koma í ljós? Skjaldborgin sem átti að vera um heimilin í landinu er utan um (Forseti hringir.) fjármálakerfið. Hún er utan um fjármálakerfið, frú forseti, og það er alveg ótrúlegt (Forseti hringir.) að fylgjast með því að í hvert sinn sem hæstv. forsætisráðherra skipar starfshóp til að ræða þessi mál (Forseti hringir.) eru hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja í meiri hluta. Þetta er (Forseti hringir.) ríkisstjórnin sem er í baráttu gegn hagsmunasamtökum.