140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga en með því er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð áætlun, bæði tekjuáætlun og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða á yfirstandandi ári. Fram hefur farið endurmat á helstu forsendum fjárlaganna og framvindu ríkisfjármála það sem af er árinu. Tillögurnar í frumvarpinu taka einnig eftir atvikum mið af nýrri lagasetningu á árinu, óvissum og ófyrirséðum útgjöldum sem og sjálfstæðum ákvörðunum um ný útgjöld.

Auknar útgjaldaskuldbindingar sem í frumvarpi þessu er sótt um heimildir fyrir eiga að stærstum hluta rætur að rekja til áhrifa af kjarasamningum sem gerðir hafa verið á árinu. Vegur þar þyngst hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga í kjölfar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá því í vor og aukinn launakostnaður ríkissjóðs vegna sambærilegra samninga við ríkisstarfsmenn. Annað sem veldur mestu um útgjöld umfram fjárlög er kerfislægur vöxtur í elli- og örorkulífeyrismálum, útgjöld vegna sérfræðilæknaþjónustu, einkum þar sem aðhaldsáform hafa ekki gengið eftir að fullu, framlög til vinnumarkaðsaðgerða, m.a. vegna ákvörðunar stjórnvalda um að auka námsframboð fyrir ungt fólk og atvinnuleitendur og efla starfsnám. Auk þess stefna lyfjakostnaður og læknismeðferð erlendis nokkuð fram úr heimildum. Á móti auknum útgjöldum af þessum og öðrum tilefnum vegur lækkun ýmissa annarra útgjaldaliða frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 2011. Má þar nefna minni vaxtakostnað ríkissjóðs, einkum vegna betri vaxtakjara á árinu en reiknað var með í útboðum ríkisbréfa, og lækkun vaxta af útgáfum ríkissjóðs til endurfjármögnunar banka. Af öðrum stærri útgjaldaliðum sem horfur eru á að verði undir áætlun fjárlaga má nefna fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs, útgjöld vegna barnabóta og þá er gert ráð fyrir því að framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði lækkað nokkuð í ár og á næsta ári á grundvelli nýrrar greiningar á eiginfjárstöðu sjóðsins sem er sterk.

Breytingar á tekjuhlið eru einnig verulegar og aukast heildartekjur en þó ekki til jafns við gjöldin. Breytingar til hækkunar koma einkum fram í tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti einstaklinga og tekjum af tryggingagjaldi. Betri horfur hvað varðar tekjuskatt og tryggingagjald eru auðvitað að miklu leyti tengdar launahækkunum í kjölfar kjarasamninga á árinu eins og áður greindi. Mun meiri fjármagnstekjuskattur skilaði sér í ríkissjóð á fyrstu átta mánuðum ársins en áætlað var en nokkur hluti þess skatts kemur jafnan til endurgreiðslu í október og því er enn talsverð óvissa um endanlegar tekjur. Aðrar tekjur sem leiða til hvað mestrar hækkunar frá fjárlögum eru tekjur af auðlegðarskatti og veiðigjaldi fyrir veiðiheimildir. Breytingar til lækkunar tekna koma aftur á móti hvað mest fram í minni tekjum af tekjuskatti lögaðila og minni tekjum af vörugjöldum.

Í fjárlögum ársins 2011 var áætlað að 37,3 milljarða kr. halli yrði á rekstri ríkissjóðs á árinu en að frumjöfnuður yrði jákvæður um 15,4 milljarða kr. á rekstrargrunni. Sú áætlun hefur nú verið endurskoðuð með hliðsjón af þjóðhagsspá sem Hagstofan birti 8. júlí sl. og í ljósi nýrra upplýsinga um þróun tekjustofna og útgjalda málaflokka frá þeim tíma. Það endurmat felur í sér breytingar á helstu stærðum ríkisfjármála frá fyrri áætlun. Í þessu sambandi er vakin athygli á því að fjárheimildir sem sótt er um í þessu frumvarpi fara ekki að öllu leyti saman við áætlaða útgjaldaútkomu ársins eins og nánar er greint frá í umfjöllun um útgjaldahorfur fyrir yfirstandandi ár í fjárlagafrumvarpi 2012. Á þessu ári er þó ekki gert ráð fyrir að sá munur verði teljandi þar sem áætlað er að á rekstrargrunni verði heildarútgjöld ársins um 0,8 milljarðar kr. umfram þær fjárheimildir sem hér er sótt um til viðbótar fjárlögum ársins. Skýrist það einkum af því að í mati á endanlegri útkomu ársins getur verið reiknað með umframgjöldum sem ekki eru gerðar tillögur um í frumvarpinu. Í umfjöllun frumvarpsins hér á eftir er almennt gengið út frá niðurstöðum miðað við fjárheimildir sem í því felast fremur en endurmetinni áætlun um útkomu ársins nema annað sé tekið fram.

Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er nú útlit fyrir að frumjöfnuður á rekstrargrunni verði jákvæður um 4,5 milljarða kr. Verða þá að sjálfsögðu komin fram mikil umskipti í stöðu ríkisfjármála frá árinu 2009 þegar halli á frumjöfnuði ríkisstarfseminnar, á þessum sama lið, var um 100 milljarðar kr. sem svarar til um 6,6% af landsframleiðslu. Á greiðslugrunni er afkoman yfirleitt nokkru lakari, einkum sökum mismunar á álögðum og innheimtum ríkistekjum og er reiknað með að afkoman verði neikvæð um rúmlega 5 milljarða kr. á þann mælikvarða.

Ég vík nú að heimildargrein frumvarpsins áður en ég fjalla nánar um tekju- og gjaldahlið. Í 4. gr. þessa fjárlagafrumvarps eru lagðar til breytingar á 6. gr. fjárlaga og vík ég þá sérstaklega að liðum 6.18, 7.18 og 7.19. Í lið 6.18 er óskað eftir heimild til að kaupa land og jarðhitaréttindi í landi Kalmannstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi af Reykjanesbæ en fjármálaráðuneytið á nú í viðræðum við Reykjanesbæ um það mál. Í lið 7.18 er óskað heimildar til að ganga frá uppgjöri og greiðslu til Landsbankans hf. vegna mismunar á eignum og innstæðuskuldbindingum SpKef sparisjóðs á grundvelli endanlegs eignamats í tengslum við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011, um samruna SpKef sparisjóðs og Landsbankans hf., samanber samning um yfirtökuna milli íslenska ríkisins og Landsbankans hf. frá sama degi.

Þetta á sér þá forsögu að hinn 22. apríl 2010 yfirtók Fjármálaeftirlitið vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Keflavíkur á grundvelli heimildar í lögum. Fjármálaeftirlitið vék í framhaldinu stjórn sparisjóðsins frá í heild sinni og skipaði bráðabirgðastjórn. Jafnframt tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að ráðstafa öllum eignum Sparisjóðs Keflavíkur til nýs sparisjóðs og kveða á um yfirtöku hans á nánar tilgreindum innstæðum og eignum. SpKef sparisjóður var í framhaldinu stofnaður af hálfu ríkisins með heimild í 1. gr. laga nr. 125/2008, svonefndra neyðarlaga, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Frá því að FME yfirtók rekstur Sparisjóðs Keflavíkur og færði innstæður og eignir í SpKef sparisjóð var unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins. Tók sú vinna lengri tíma en búist var við, m.a. vegna tafa við gerð stofnefnahagsreiknings og óvissu um eignamat. Samkvæmt mati stjórnar Sparisjóðs Keflavíkur frá febrúar 2011 var staða hans þannig að eigið fé var neikvætt um 11,2 milljarða kr. en 19,4 milljarða vantaði í heild til að uppfylla kröfur FME um lágmarks eigið fé ætti að reka sjóðinn áfram sem sjálfstæðan sparisjóð. Hinn 3. mars 2011 kynnti sérstakur starfshópur um málefni sparisjóðsins þá niðurstöðu sína að með hliðsjón af kostnaði væri rétt að leita leiða til að sameina SpKef sparisjóð og NBI hf., nú Landsbankann hf. frá 28. apríl 2011, í stað þess að endurfjármagna hann með sjálfstæðum hætti. Var mat manna það að sú aðgerð hefði orðið enn þá kostnaðarsamari. Starfshópurinn sem skipaður var að tilhlutan stjórnvalda starfaði undir forustu Bankasýslu ríkisins. Niðurstaða hans varð sú að með sameiningu við Landsbankann hf. yrðu endanleg framlög úr ríkissjóði mun lægri auk þess sem rekstrarforsendur fyrir starfsemi sparisjóðsins yrðu þá traustari. Á grundvelli tillagna starfshópsins og til að tryggja hagsmuni innstæðueigenda hófust viðræður við Landsbankann hf. um yfirtöku og samruna við SpKef sparisjóð til að bregðast við vanda hans. Viðræðurnar leiddu til þess að hinn 5. mars 2011 tók FME formlega stjórnvaldsákvörðun vegna stöðu SpKef sparisjóðs sem fól í sér samruna SpKef og Landsbankans hf. Sama dag var ritað undir samning milli íslenska ríkisins og Landsbankans hf. um yfirtöku bankans á sparisjóðnum.

Í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda frá haustinu 2008 sem síðan hefur verið ítrekuð af núverandi ríkisstjórn er ljóst að allar innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum eru tryggðar. Skuldir SpKef sparisjóðs fela einungis í sér tryggðar innstæður þannig að ákvörðunin sem liggur til grundvallar frumvarpi þessu byggist því á umræddri yfirlýsingu stjórnvalda. Samkvæmt samningi ríkisins og Landsbankans hf. hefur bankinn unnið að verðmati og áreiðanleikakönnun á eignum og skuldum sparisjóðsins. Í samningnum er gert ráð fyrir að aðilar samnings geti gert athugasemdir við eignamatið og lagt fram rökstuddar tillögur að breytingum. Nú standa yfir viðræður milli ríkisins og Landsbankans um eignamatið. Verði ágreiningur milli aðila sem ekki tekst að leysa úr er gert ráð fyrir að honum megi vísa til sérstakrar úrskurðarnefndar. Er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar bindandi fyrir báða aðila um fjárhagslegt uppgjör samkvæmt samningnum.

Nokkur óvissa er um tímasetningu varðandi endanlegt uppgjör skulda og eigna sparisjóðsins og má gera ráð fyrir að einhver bið geti orðið á niðurstöðu verði uppi ágreiningur milli aðila sem ekki verður leystur nema fyrir tilstuðlan úrskurðarnefndar. Gera má þó ráð fyrir því að endanleg niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum ef allt fer vel. Ekki liggur fyrir þar með hver er munur milli eigna og skulda þegar upp verður staðið en með þeirri málsmeðferð sem samningurinn kveður á um er leitast við að tryggja að sú niðurstaða feli í sér faglegt og hlutlaust mat á eignum og skuldum. Ljóst er þó að með yfirtöku Landsbankans á SpKef mun ríkissjóður ekki þurfa að leggja fram um það bil 8 milljarða eiginfjárframlag sem nauðsynlegt væri, óháð mismun eigna og skulda, til að hann uppfyllti kröfur FME um lágmarkseiginfjárhlutfall hefði sparisjóðurinn ekki verið yfirtekinn.

Í tilviki Byrs hefur Samkeppniseftirlitið samþykkt að eignarhlutur ríkisins í Byr hf. verði seldur. Með ákvörðun hinn 22. apríl 2010 yfirtók FME vald stofnfjáreigendafundar í Byr sparisjóði, vék stjórninni frá og skipaði bráðabirgðastjórn. Stofnaður var nýr banki, Byr hf., með 900 millj. kr. eiginfjárframlagi úr ríkissjóði og voru allar innstæður og eignir gamla sparisjóðsins fluttar yfir í hinn nýja banka. Í samræmi við ákvörðun FME skyldi fara fram uppgjör milli gömlu og nýju fjármálastofnananna og að því loknu yrði bankanum lagt til eigið fé sem dygði til að uppfylla skilyrði FME um starfsleyfi. Samkomulag náðist um það milli ríkisins, Byrs hf. og slitastjórnar Byrs sparisjóðs að slitastjórn breytti kröfu sinni á hendur Byr hf. í hlutafé en á móti lofaði ríkið að veita Byr hf. víkjandi lán. Á vormánuðum 2011 lá fyrir að áætlanir um fjárhagslega skipan Byrs hf. samkvæmt ofangreindu samkomulagi dygðu ekki og að hvorki ríkið né kröfuhafar Byrs sparisjóðs voru tilbúnir að leggja fram frekari fjármuni. Í ljósi stöðunnar ákvað stjórn Byrs hf. að reyna að tryggja fjárhag bankans með því að bjóða til sölu nýtt hlutafé í bankanum. Í skipulögðu og opinberu söluferli síðastliðið sumar var áhugasömum fjárfestum boðið að kaupa nýtt hlutafé fyrir allt að 10 milljarða kr. og eignast með því meiri hluta hlutafjár í bankanum. Jafnframt lýstu bæði ríkið og slitastjórn Byrs sparisjóðs því yfir að hlutir þeirra væru til sölu ef bjóðendur kysu að eignast allan bankann. Tveir aðilar skiluðu inn tilboðum og gerðu báðir kröfur um að kaupa allt hlutafé bankans og að Byr hf. yrði sameinaður við þá. Einnig gerðu báðir bjóðendur kröfu til þess að víkjandi lán það sem samið var um í rammasamkomulaginu stæði þeim til boða. Í ljósi niðurstöðu mats á framkomnum tilboðum var að gengið til samninga við Íslandsbanka. Samningurinn er með fyrirvara um samþykki FME og Samkeppniseftirlitsins um yfirtöku Íslandsbanka á Byr hf. og sameiningu. Þá er undirskrift fjármálaráðuneytis um sölu á 12% hlut sínum í bankanum með fyrirvara um samþykki Alþingis og er því leitað heimildar til þeirrar sölu hér. Fjármálaeftirlitið hefur þegar heimilað að gengið verði til samninga við Íslandsbanka um sölu á Byr hf. en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur enn ekki fyrir.

Ég vík þá aftur, virðulegi forseti, nánar að tekju- og gjaldahlið fjáraukalagafrumvarpsins. Gert er ráð fyrir að í ár verði heildartekjur ríkissjóðs 482,7 milljarðar kr. á rekstrargrunni og heildargjöld 524 milljarðar kr. Áætlað er að heildarjöfnuður ársins verði því neikvæður um 41,3 milljarða kr. en frumjöfnuður jákvæður um 4,5 milljarða. Reiknað er með að handbært fé frá rekstri verði neikvætt um tæpa 52 milljarða kr. og hreinn lánsfjárjöfnuður neikvæður um 46 milljarða kr. Helstu breytingar frá fjárlögum eru þær að reiknað er með rúmlega 10 milljarða kr. vexti í tekjum ríkissjóðs á móti rúmlega 14 milljarða kr. aukningu gjalda. Verður þá heildarjöfnuðurinn á rekstri ríkissjóðs tæplega 4 milljörðum kr. lakari en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Þar af er frumjöfnuður 11 milljörðum kr. lakari en vaxtajöfnuður aftur á móti 7 milljörðum kr. betri. Þá er reiknað með að handbært fé frá rekstri verði 6,3 milljörðum kr. minna en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga. Aftur á móti er gert ráð fyrir að fjármunahreyfinga skili 17,7 milljörðum kr. meira í ríkissjóð en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga og verður hreinn lánsfjárjöfnuður þá 11,4 milljörðum kr. hagstæðari en áður var reiknað með. Gert er ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkissjóðs verði mætt með lántökum en einnig með minni uppkaupum á skuldum ríkissjóðs en áður var áformað og að staða ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands verði bætt. Nánar er fjallað um helstu breytingar á tekju- og gjaldahlið og sjóðstreymi ríkissjóðs og skýringar á þeim í sérstökum köflum hér á eftir.

Útlit er fyrir að tekjuáætlun ársins 2011 muni ganga eftir og ríflega það. Á fyrstu átta mánuðum ársins eru innheimtar tekjur 3,8% yfir áætluðum tekjum tímabilsins. Sú niðurstaða gefur fullt tilefni til að hækka tekjuáætlun ársins í heild um ríflega 10 milljarða kr. í frumvarpi til fjáraukalaga. Þar af hækka frumtekjur um 9,3 milljarða kr. og vaxtatekjur um 0,8 milljarða kr. Gangi sú áætlun eftir munu frumtekjur á greiðslugrunni nema 27% af landsframleiðslu á yfirstandandi ári í stað 26,6% í áætlun fjárlaga. Á heildina litið hafa því þau markmið sem tekjuaðgerðum fjárlaga fyrir árið 2011 var ætlað að ná fram gengið eftir þótt frávik séu í báðar áttir innbyrðis á milli tekjustofna. Þeim forsendum sem byggt er á við endurmat tekjuáætlunar fjárlaga má einkum skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi er niðurstaða ríkisreiknings fyrir árið 2010 sem lá fyrir undir lok júlí sl., í öðru lagi endurskoðuð þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir árið 2011 frá 8. júlí sl. og í þriðja lagi eru upplýsingar um álagningu og innheimtu skatta og annarra tekna á fyrstu átta mánuðum ársins. Af þessum þáttum vega innheimtuupplýsingar þyngst í tilviki flestra skatta, enda er þar um áreiðanlegar upplýsingar að ræða um þróunina á fyrstu tveimur þriðjungum ársins á greiðslugrunni. Við endurskoðun fjárlagaáætlunar á greiðslugrunni er einkum tekið mið af þeim upplýsingum og áætlun gerð um mánaðarlega innheimtu til ársloka. Áætlun á rekstrargrunni er síðan í flestum tilvikum byggð á greiðslugrunnsáætluninni auk upplýsinga um álagningu ársins og eftir atvikum öðrum gögnum. Tekjur ríkissjóðs samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings urðu 478,7 milljarðar kr. á árinu 2010 sem er 1 milljarði kr. meira en í áætlun fjáraukalaga síðasta árs á rekstrargrunni. Á greiðslugrunni varð útkoman 4 milljörðum kr. hærri en áætlunin. Frávik í einstökum liðum frá áætlun 2010 hafa í flestum tilvikum sjálfkrafa nokkur áhrif á áætlun ársins 2011 á rekstrargrunni.

Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2011 var spáð 1,9% hagvexti og 2,3% verðbólgu að meðaltali milli áranna 2010 og 2011. Miðað við júlíspá Hagstofunnar mun hagþróunin verða heldur betri en hins vegar verðbólga meiri og er nú spáð 3,9% verðbólgu að jafnaði milli áranna 2010 og 2011. Ein meginbreytingin frá fyrri forsendum felst í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á vinnumarkaði síðan í maí. Launahækkanir í upphafi samningstímans eru meiri en ráð var fyrir gert og hækkanir á samningstímabilinu í heild eru einnig heldur meiri. Hagstofan hefur einnig endurskoðað mat sitt á vinnuaflseftirspurn á árinu og telur að hún muni nú aukast um 2,1% í stað 0,8% milli ára og hljóta það að teljast gleðilegar fréttir. Þá er rétt að nefna að margir sóttu um að taka út séreignarsparnað á fyrsta fjórðungi ársins og verður sú viðbót við tekjuskattsstofn ársins meiri en ætlað var. Þetta leiðir til hækkunar á fyrri áætlunum um stofna tekjuskatts einstaklinga og tryggingagjalda og er útlit fyrir ágætan vöxt þeirra á árinu, eftir því sem næst kyrrstöðu þeirra beggja að nafnvirði á árinu 2010. Aukin verðbólga leiðir þó til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna í heild er nú talinn aukast minna milli ára en áður, þ.e. um 3,3% í stað 3,6% í fyrri spá. Þá hefur vöxtur einkaneyslu verið endurmetinn upp á við, úr 2,6% í 3,1%. Óbeinir skattar eru aftur á móti nú taldir skila ríkissjóði 3,6 milljörðum kr. minni tekjum en í áætlun fjárlaga og skýrist það af fleiri þáttum en hinum almennu þjóðhagsforsendum eins og fram kemur í umfjöllun hér á eftir.

Í frumvarpinu er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs á árinu 2011 verði hækkaðar um 14,2 milljarða kr. Annars vegar er gert ráð fyrir að útgjaldaheimildir hækki um 23,4 milljarða kr., að stærstum hluta vegna 13,7 milljarða kr. útgjalda í kjölfar kjarasamninga ársins. Þar af nema bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga um 8,3 milljörðum kr. og laun opinberra starfsmanna um 5,3 milljörðum kr. Meðalhækkun á launaliðum stofnana vegna kjarasamninga er rétt um 5% í frumvarpinu en bótagreiðslur voru hækkaðar um 8,1%. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að liðir sem eru fjármagnaðir með mörkuðum ríkistekjum hækki um 1,2 milljarða kr. en útgjöld vegna þeirra liða hafa ekki áhrif á afkomu ársins. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að útgjöld lækki af ýmsum tilefnum um rúma 10,3 milljarða kr. Munar þar mest um að endurskoðuð áætlun um vaxtagjöld ársins gerir ráð fyrir 6,3 milljarða kr. lækkun þeirra. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að óskipt fjárheimild á lið vegna ófyrirséðra útgjalda verði nýtt að fullu með því að millifæra launaheimildir að fjárhæð um 3,3 milljarða kr. til stofnana og að afgangurinn, 1,7 milljarðar kr., verði millifærður á liði vegna gengisendurmats og annarra mála. Fjárheimild safnliðarins lækkar því í sama mæli og er því engin nettóbreyting á fjárheimildum í frumvarpinu vegna þeirra mála. Hins vegar er óskað eftir aukinni fjárheimild á þessum lið sem nemur 2,5 milljörðum kr. til að unnt verði að standa að fullu undir millifærslum á launabótum til stofnana vegna kjarasamninga.

Af öðrum liðum sem áætlað er að verði umfram forsendur fjárlaga vegur þungt kerfislægur vöxtur í útgjöldum vegna ellilífeyris og örorkubóta sem gert er ráð fyrir að verði 4 milljarðar kr. umfram áætlanir, en það endurmat byggir á rauntölum á fyrri helmingi ársins og áætlun til áramóta. Þá eru horfur á að sérfræðilæknakostnaður verði um 1,2 milljörðum kr. hærri en áformað var í fjárlögum þar sem ekki er útlit fyrir að aðhaldsmarkmið í þeim málaflokki gangi eftir í samningum við rekstraraðila. Gert er ráð fyrir að framlög vegna vinnumarkaðsaðgerða aukist um nálægt 950 millj. kr., einkum vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að auka námsframboð fyrir atvinnuleitendur og efla starfsnám. Horfur eru á að lyfjakostnaður sjúkratrygginga verði tæplega 900 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2011 miðað við spá um útkomu ársins. Þrátt fyrir að talsverður árangur hafi náðst í að færa lyfjanotkun meira í ódýrari lyf hefur magnaukning lyfjanotkunar vegið upp kostnaðarábatann af þeim árangri. Að óbreyttu er útlit fyrir að lækniskostnaður vegna brýnnar meðferðar erlendis verði rúmlega 660 millj. kr. umfram fjárheimildir fjárlaga. Vegna endurskoðaðrar áætlunar um lögbundin framlög af skatttekjum og útsvarsstofni auk endurmats á kostnaði við húsaleigubótakerfið er reiknað með að auka þurfi tilfærsluframlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um samtals 555 millj. kr. Þá má nefna að þegar tekið hefur verið tillit til úthlutana eftir endurálagningu vaxtabóta vegna húsnæðislána í kjölfar álagningar skatta á einstaklinga liggur fyrir að greiðslurnar verða um 500 millj. kr. hærri en áætlað var í fjárlögum. Gert er ráð fyrir að Ofanflóðasjóður nýti afgangsheimildir frá fyrri árum til framkvæmda sem nemi tæpum 450 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga. Áætlað er að greiðslur sanngirnisbóta vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn verði rúmar 420 millj. kr. umfram áætlanir í fjárlögum. Þetta stafar fyrst og fremst af því að greiddar verða bætur vegna fleiri heimila en áður var áætlað. Gert er ráð fyrir 400 millj. kr. framlagi vegna átaks í eflingu atvinnu og byggðar á Vestfjörðum, auk þess sem 300 millj. kr. fara til átaks til að jafna árstíðasveiflu í ferðamennsku. Loks má nefna, frú forseti, að þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 13/2011, um heimild fjármálaráðherra til að staðfesta svokallaðan Icesave-samning, hafði í för með sér 245 millj. kr. viðbótarútgjöld á þessu ári.

Lækkun útgjalda frá forsendum fjárlaga 2011 er að stærstum hluta til komin vegna endurskoðaðrar áætlunar um vaxtagjöld ársins sem gert er ráð fyrir að lækki um rúma 6,3 milljarða kr. eins og að framan greinir. Stafar það aðallega af lægri ávöxtunarkröfu í útboðum ríkisverðbréfa en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir, auk þess sem óverðtryggðir vextir af útgáfum ríkissjóðs vegna endurfjármögnunar bankanna hafa líka reynst lægri. Af öðrum stærri útgjaldaliðum sem horfur eru á að verði undir áætlunum fjárlaga má nefna að horfur eru á að fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs verði 1,2 milljörðum kr. lægri en reiknað var með í fjárlögum og að við skattálagningu kom í ljós að útgjöld vegna barnabóta höfðu verið ofmetin í fjárlögum sem nemur um 1,2 milljörðum kr. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði lækkað um 600 millj. kr. á þessu ári þar sem eiginfjárstaða sjóðsins er mjög sterk. Þrátt fyrir að framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs hækki verulega vegna hækkana á bótafjárhæðum í kjölfar kjarasamninga, eins og áður er um getið, er reiknað með að útgjöld sjóðsins í heild lækki um 270 millj. kr. vegna minna atvinnuleysis. Önnur tilefni til lækkunar á útgjaldahliðinni eru lægri.

Frú forseti. Þetta er meginniðurstaðan. Þrátt fyrir þær miklu breytingar sem gerð kjarasamninga í vor og afleidd áhrif á ríkisútgjöld hafa í för með sér og þrátt fyrir þá óvissu sem eðlilega er glímt við þessi missirin í sambandi við alla áætlanagerð á sviði ríkisfjármála verður útkoman þegar upp er staðið, gangi það eftir sem hér er lagt til, tiltölulega lítil breyting á heildarafkomu ríkissjóðs, þ.e. tæplega 4 milljarða kr. lakari afkoma, og held ég að það verði að teljast nokkuð vel sloppið, ef svo má að orði komast.

Ég legg svo til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar sem fær þá málið til skoðunar ásamt með fjárlagafrumvarpi því sem þar er nú til meðhöndlunar.