140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hann hefur látið sig varða og fylgt eftir þeim hugmyndum sem hann var að ræða hér um það sem gerðist við yfirtökuna á Sparisjóð Keflavíkur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á deilum á milli ríkisins og nýja Landsbankans. Þar hafa menn nefnt allt að 30 milljarða mismun á eignasafni. Nú kemur það fram og það vita allir að 22. apríl 2010 yfirtekur Fjármálaeftirlitið Sparisjóð Keflavíkur og víkur í framhaldinu stjórn sparisjóðsins frá í heild sinni og er þá í raun undir handleiðslu Fjármálaeftirlitsins með reksturinn alveg til 5. mars 2011. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig á því stendur að svona mikill ágreiningur sé um það hvert hið eiginlega virði eignasafns Sparisjóðs Keflavíkur er, en Fjármálaeftirlitið er í raun búið að vera að reka þennan sparisjóð alveg frá því í apríl 2010. Af hverju eru menn ekki komnir nær í sannleikanum um það hvert hið eiginlega raunvirði eignasafnsins er? Ekki þarf að deila um innlán, deilurnar fjalla eingöngu um eignasafn sparisjóðsins. Það er undarlegt að Fjármálaeftirlitið hafi ekki verið búið að gera sér grein fyrir því hversu mikils virði eignasafnið var á öllum þessum tíma, að við skulum standa hér í októbermánuði 2012, alveg frá því í apríl 2010, og menn séu enn að rexa og pexa um hvert hið eiginlega virði eignasafnsins er, svo að munar tugum milljarða.