140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

námsárangur drengja í skólum.

56. mál
[15:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa þörfu umræðu. Það er afar gott að við höfum hér faglegt mat til að ræða málin út frá, þá skýrslu sem hér er til umræðu. Það sem mér finnst við þurfa að gæta okkar á í umræðu um stöðu kynja í skólastarfi er að við þurfum að sjálfsögðu að virða þann mun sem er á kynjunum án þess að gera hann að aðalatriði. Sú skólastefna sem við höfum reynt að iðka er skóli fjölbreytileikans þar sem er pláss fyrir mismunandi krakka, hvort heldur þau glíma við erfiðleika á tilteknum sviðum eða eru jafnvel þannig stödd að búa við fötlun. Skólinn á að hýsa alla þessa krakka og sýna þeim virðingu.

Læsið skiptir ofsalega miklu máli, það er mjög mikilvægt. Það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér er hárrétt, þetta skiptir máli upp á sjálfsmyndina.

Þá langar mig til þess, eins og ég hef gert áður, að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort honum finnist ekki við þurfa að gera sérstakt átak í þessu. Hér er verið að loka starfsemi í (Forseti hringir.) bókasöfnum nánast allra grunnskóla landsins þar sem bara standa bækur án þess að nokkuð sé gert með þær. Þurfum við ekki að auka áhuga fyrir læsi, m.a. með því að stórefla skólabókasöfnin (Forseti hringir.) á landinu?