140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég óska vinum mínum og uppalendum í Þingeyjarsýslu til hamingju með það að loksins skuli hafa slokknað á þessu villuljósi sem upp var sett fyrir þá fyrir mörgum árum. Þetta er vonandi í síðasta sinn sem álfyrirtæki og misvitur stjórnvöld toga heil héruð á asnaeyrunum í atvinnuuppbyggingu sem aldrei voru forsendur fyrir. Það er ástæða (Gripið fram í.) til að rifja upp að frá því var sagt á þeim tíma, (Gripið fram í.) það var varað við Bakkadraumnum á margvíslegum forsendum, ekki síst þeirri að jarðvarmasvæði eru öðruvísi en vatnsaflssvæði og það er ekki hægt að reikna sig út á skrifborðinu til niðurstöðu í því hvaða orku er þar að finna.

Ég held að það sé kannski sérstök ástæða til að fagna því að enn eru í miklum gangi áform um uppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Það er líka ástæða til að fagna því að Landsvirkjun er nú í fyrsta sinni í mjög langan tíma rekin á faglegum markaðsforsendum en ekki pólitískum eins og var í tíð Framsóknarflokksins, í iðnaðarráðuneytinu til upprifjunar fyrir hv. þm. Höskuld Þórhallsson. Ég held að við eigum að láta okkur þetta að kenningu verða, bæði í Þingeyjarsýslum, hér í salnum og víðar um landið. Við eigum að stjórna atvinnuuppbyggingu, orkumálum og umhverfismálum af forsjá meira en því kappi sem hér hefur leitt menn út í vitleysisan þannig að Þingeyingar standa nú og horfa út í loftið en mega vera fegnir að komast loksins (Forseti hringir.) niður á jörðina í þessum efnum.